Komist að sátt í nauðgunarmáli

Cuba Gooding Jr. hefur komist að sátt við ákæranda sinn …
Cuba Gooding Jr. hefur komist að sátt við ákæranda sinn í nauðgunarmáli, utan dómsstóla. AFP

Óskarsverðlaunahafinn Cuba Gooding Jr. hefur komist að sátt við ákæranda sinn fyrir utan dómsstóla. Gooding Jr. var ákærður fyrir nauðgun af ónafngreindri konu, sem segir hann hafa brotið á sér tvisvar á hótelherbergi í New York árið 2013.  

Samkvæmt BBC liggur ekki fyrir hverjir skilmálar sáttmálans séu. Upphafleg krafa stefnenda í málinu fór fram á sex milljónir bandaríkjadala í skaðabætur, eða um 844 milljónir krónur.

Áætlað var að þrjár konur, sem áður hafa ásakað Gooding Jr. um áreitni, myndu bera vitni í málinu þar sem dómari taldi framburð þeirra svipaðan framburði stefnenda.  

Fjöl­marg­ar kon­ur hafa sakað Gooding Jr. um kyn­ferðis­lega áreitni, en málið sem um ræðir er eina nauðgunarákæran sem lögð hefur verið á hendur honum. Leikarinn hefur áður verið sakfelldur fyrir að kyssa konu gegn vilja hennar og var honum dæmt að gangast undir sex mánaða áfengis- og atferlismeðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert