Eldgos hafið í Indónesíu: 150 þurftu að rýma þorp

Mikil gjóska hefur spúst frá Marapi-fjalli eftir að gos hófst.
Mikil gjóska hefur spúst frá Marapi-fjalli eftir að gos hófst. AFP

Marapi-fjall á eyjunni Súmötru í Indónesíu gaus í gærkvöldi og spúði ösku sem lagðist á nærliggjandi þorp og varð til þess að yfir 150 manns þurftu að yfirgefa svæðið.

Að sögn yfirvalda hófst eldgosið klukkan 6.21 að staðartíma (kl. 23.21 í gær að íslenskum tíma) og gjóska frá gosinu nær 1.300 metra upp fyrir gíginn.

„Fólk sem býr nálægt dalnum eða árbökkunum fyrir neðan topp Marapi ætti að vara við hættunni sem stafar af hrauninu sem getur myndast á regntímanum,“ segir í yfirlýsingu eldfjallafræðistofnunar landsins.

Gaus einnig í desember

Yfirvöld hækkuðu í síðustu viku viðbúnaðarstig Marapi-fjalls í næsthæsta stig í kjölfar aukinnar eldvirkni. Með nýju viðbúnaðarstigi þarf að rýma allt svæði innan við 4,5 kílómetra radíus frá gígnum.

Einnig gaus í Marapi fjalli í desember, en það gos var kröftugra en það sem hófst í fjallinu í gærkvöldi. 75 voru þá við fjallgöngu en 23 létu lífið þegar gaus.

Eins og mbl.is greindi frá í morgun er eldgos hafið í grennd við Grindavík á Reykjanesskaga og hefur bærinn verið rýmdur. Gosið hér á landi, hið fimmta á þremur árum, hófst tæplega fjórum vikum eftir að síðast gaus á sama svæði.

Þá er einnig gos hafið í Japan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert