Sátt í Steinsmálinu á Landspítala

Sátt hefur náðst í máli Steins Jónssonar sem sagt var upp störfum sem sviðsstjóri læknisfræðisviðs á skrifstofu kennslu og fræða á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Tekur Steinn að sér umsjón með framhaldsmenntun lækna á lyflækningasviðum.

Steinn Jónsson og Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss hafa orðið sammála um að Steinn taki að sér skipulagningu og samræmingu framhaldsmenntunar aðstoðarlækna og deildarlækna í klínísku námi á lyflækningasviðum spítalans. Unnið er að því að efla háskólasjúkrahúsið með ýmsum hætti og er þetta samkomulag liður í því. Steinn Jónsson verður áfram sérfræðingur í lyf- og lungnalækningum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Með þessu verður Steinn ekki yfirmaður á spítalanum, eins og hann hefði orðið sem sviðsstjóri læknisfræðisviðs á skrifstofu kennslu og fræða. Ekki hefur enn verið valið í það starf en það felur í sér yfirumsjón læknakennslunnar á öllum sviðum spítalans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert