Andrúmsloftið í samfélaginu einkennist í ríkum mæli af græðgi

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sagði í ávarpi á ársfundi Starfsgreinasambands Íslands í dag, að andrúmsloftið í samfélaginu einkennist í ríkum mæli af græðgi, sem menn hafi ekki áður upplifað jafn sterkt og um þessar mundir. „Það hefur fjarað undan samfélagslegum gildum, samkennd og samhjálp og ég hef ekki séð að stjórnvöld hafi haft uppi neina tilburði til að koma í veg fyrir þessa þróun," sagði Grétar.

Hann sagðist geta nefnt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í þessu sambandi. Þar væri vissulega að finna áherslur sem ástæða sé til að fagna, svo sem 9% viðbót til menntamála, að teknu tilliti til verðbólgu.

„Ég held þó því miður við getum tæplega haldið því fram að þetta sé velferðarfrumvarp með félagslegum áherslum. Þetta stórkostlega tækifæri til að snúa við blaðinu og hreinlega þurrka út stærstu vankantana á velferðarkerfinu er notað til að færa þeim meira sem mest hafa, með því að útfæra illa tímasettar skattalækkanir þannig að hátekjufólkið fær mest.

Síðan hefur andrúmsloftið, þenslan og græðgin gert það að verkum að sumir atvinnurekendur hafa notfært sér ástandið og fengið til starfa erlent vinnuafl sem síðan er misnotað til að knýja niður kjör á almennum vinnumarkaði," sagði Grétar m.a. í ræðu sinni.

mbl.is