Íbúar boðaðir á fund með áfallateymi

Frá Sólvallaskóla á Selfossi í morgun þar sem fjölhjálparstöð er …
Frá Sólvallaskóla á Selfossi í morgun þar sem fjölhjálparstöð er starfrækt mbl.is/Golli

Áfallateymi Rauða krossins heldur fundi fyrir íbúa á Suðurlandi nú eftir hádegið.

Á Selfossi hefst fundurinn kl. 12:30 í fjöldahjálparhjálparstöð Rauða krossins í Vallarskóla.  Þar verða einnig fulltrúar frá bæjaryfirvöldum til að ræða við íbúana.

Í Hveragerði hefst fundur með áfallateymi Rauða krossins kl. 13:00 í fjöldahjálparstöðinni í grunnskólanum í Hveragerði.  Þar verða einnig fulltrúar frá bæjaryfirvöldum.

Fundirnir eru opnir íbúum á Suðurlandi, og er fólk úr nágrenni Hveragerðis og Selfoss hvatt til að nýta sér þessa þjónustu.  Áfallateymið verður í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins í Hveragerði og á Selfossi í dag og næstu daga, og munu sinna öllum þeim sem sækja eftir þeirra þjónustu eftir bestu getu.  Rauði krossinn útvegar einnig túlka fyrir þá sem þurfa.

Rauði krossinn vill benda þeim á sem hafa yfirgefið skjálftasvæðið en vilja áfallahjálp að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717 til upplýsinga og aðstoðar.

Fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins verða opnar í dag í Hveragerði og á Selfossi, og hafa Rauða kross deildir á Suðurlandi fengið til liðs við sig sjálfboðaliða af höfuðborgarsvæðinu til að standa vaktir.  Metið verður síðar í dag hvort þörf er á slíkri þjónustu í nótt, að því er segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.

mbl.is