Krafan byggir á vanþekkingu Ólafar

Þingmenn Hreyfingarinnar
Þingmenn Hreyfingarinnar mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýna þau vinnubrögð sem Alþingi hefur, að þeirra sögn, tekið upp við umræðu þingsályktunartillagna um ráðherraábyrgð. Segja þeir kröfu Sjálfstæðisflokksins um frestun umræðunnar kom til vegna vanþekkingar varaformannsins, Ólafar Nordal, á málinu og kröfu hennar um aðgang að trúnaðargögnum þingmannanefndarinnar.

„Í dag var þingfundi um málið frestað um óákveðinn tíma vegna kröfu Sjálfstæðisflokksins um að trúnaði yrði aflétt af vinnugögnum þingmannanefndarinnar en upphaflega stóð til að þeir þingmenn sem sæti eiga í þingmannanefndinni myndu hafa framsögu. Krafa Sjálfstæðisflokksins var studd af Samfylkingunni.

Þingmenn Hreyfingarinnar benda á að vinnureglur þingmannanefndarinnar hafa legið fyrir frá því í apríl 2010. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að margir sérfræðinganna sem komu fyrir nefndina gáfu álit sitt á þeirri forsendu að það væri bundið trúnaði. Þá bendir Hreyfingin á að fulltrúi hennar í nefndinni, Birgitta Jónsdóttir, barðist fyrir því við gerð verklagsreglnanna að störf nefndarinnar yrðu fyrir opnum tjöldum. Því var hafnað. Vegna rannsóknarhagsmuna féllst fulltrúi Hreyfingarinnar að lokum á að þau störf nefndarinnar sem varða landsdóm og ráðherraábyrgð yrðu bundin trúnaði," segir í tilkynningu frá þingmönnum Hreyfingarinnar.

Telja að Þingvallastjórnin sé tekin við á ný

Krafa Sjálfstæðisflokksins um frestun umræðunnar kom til vegna vanþekkingar varaformannsins, Ólafar Nordal, um málið og kröfu hennar um aðgang að trúnaðargögnum þingmannanefndarinnar. Hún tók að sér að hafa framsögu um ráðherraábyrgð fyrir hönd flokksins í stað Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og Unnar Brár Konráðsdóttur sem voru kjörnir fulltrúar flokksins í nefndinni. Ekki hefur komið fram af hverju fulltrúar flokksins í þingmannanefndinni hafa ekki framsögu um málið eins og hefð er fyrir, segir í tilkynningunni.

„Það virðist því sem Þingvallastjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks (hrunstjórnin) hafi tekið völdin á Alþingi í þessu máli og er uppgjör hrunsins nú í hennar höndum," segir ennfremur í tilkynningu frá þingmönnum Hreyfingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert