99% líkur á að hún eigi barnið

Lík barnsins fannst í ruslagám við Hótel Frón við Laugaveg.
Lík barnsins fannst í ruslagám við Hótel Frón við Laugaveg. mbl.is/Árni Sæberg

Niðurstöður DNA-rannsóknar sem gerðar voru á líki barnsins sem fannst í ruslagámi við Hótel Frón í fyrrasumar eru þær að 99,999% líkur séu á því að Agné og Deivid séu foreldrar barnsins. Þetta kom fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

DNA-sýni úr líki barnsins voru send til greiningar í Svíþjóð og var niðurstaðan þessi. Agné fullyrti sjálf fyrir Héraðsdómi í morgun að hún hefði hvorki gengið með né fætt barnið, ekki veitt því áverka né ráðið því bana. 

Þýskur réttarmeinafræðingur sem krufði barnið staðfesti að það hefði verið fullburða og heilbrigt í fæðingu. Dánarorsökin var köfnun vegna kyrkingar. Hún sagði erfitt að fullyrða hve langur tími hefði liðið frá fæðingu og þar til barnið var dáið. Lungu þess hafi verið búin að opna sig að fullu en að öllum líkindum hafi barnið látist innan nokkurra mínútna frá fæðingu.

Við fyrstu skoðun á líkinu taldi réttarmeinafræðingurinn hugsanlegt að naflastrengurinn hefði verið bitinn eða slitinn í sundur en við krufningu varð niðurstaðan sú að sennilega hefði hann verið klipptur eða skorinn með eggvopni. Hún leiddi að því líkum að skurðáverkarnir í munnvikum barnsins hefðu komið til á sama tíma og naflastrengurinn var skorinn. Eggvopnið hefur hinsvegar ekki fundist og því ekki hægt að skera úr um hvernig það var. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert