Beitt kynferðislegu ofbeldi árum saman

Kristskirkja við Landakot.
Kristskirkja við Landakot. mbl.is/Sigurður Ægisson

Lýsingar þeirra sem segjast hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu séra George og Margrétar Müller í Landakotsskóla á tímabilinu 1954 til 1990 eru skelfilegar. Í gær kom út skýrsla rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

Átta af þeim 30 fyrrverandi nemendum Landakotsskóla sem nefndin ræddi við sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Ein stúlka til viðbótar við þessa átta einstaklinga, sagði frá háttsemi sem er þess eðlis að vekja grunsemdir um að brotið hafi verið gegn henni kynferðislega.

Brotin hófust sama ár og séra George kom til Íslands

Þessir níu einstaklingar voru fæddir á árunum 1948 til 1977. Fyrsta dæmið um ofbeldið er frá 1956 eða sama ári og séra George kom til Íslands, en önnur frá þeim tíma sem hann var skólastjóri Landakotsskóla og Margrét Müller kennari þar. Síðustu dæmin eru frá árinu 1988.

Sú háttsemi sem hefur verið lýst af hendi séra George er þukl, strokur, og „mjög gróft káf“ innan klæða og utan á kynfærum og á bringu drengja og stúlkan. Frásagnir eru um að drengir og stúlkur hafi verið látin taka niður um sig buxur og leggjast yfir hné sér George, sem strauk og setti fingur í endaþarm drengs og í kynfæri stúlkna. Þá eru frásagnir um að hann hafi snert kynfæri drengs með kennarapriki, að drengur hafi verið látinn þukla kynfæri hans, að drengur hafi verið látinn fróa honum og hafa munnmök við hann. 

Fimm frásagnir eru um að séra George hafi fróað sér á meðan hann átti við  börnin, til dæmis með því að nudda sér við síðu drengs, skýla sér bak við borð eða fara afsíðis.

Flestir þessara einstaklinga sögðu að brotin hefðu átt sér stað á skrifstofu séra George í skólanum, skrifstofu hans eða vistaverum í presthúsinu og sumarbúðum í Stykkishólmi og Riftúni.

Einstaka frásagnir voru um að brotin hefðu átt sér stað í handavinnustofunni í skólanum, á kennarastofunni og í íbúð Margrétar í Landakotsskóla.

Rannsóknarnefndin tekur það fram í skýrslu sinni að það sé ekki hlutverk hennar að leggja mat á trúverðugleika frásagna um ofbeldi og afleiðingar þess.

Sagði þetta gert með leyfi foreldra

Frásagnir eru um að séra George hafi gefið sumum börnunum þær skýringar á háttsemi sinni að foreldri hefði beðið sig um eða gefið leyfi til að refsa þeim fyrir misgjörðir heima fyrir eða vegna þess þau stæðu sig ekki nægjanlega vel í náminu.

Þrír fyrrverandi nemendur Landakotsskóla, allir karlkyns, skýrðu frá kynferðislegu ofbeldi sem bæði George og Margrét beittu þá, ýmist saman eða sitt í hvoru lagi.

Einn þeirra lýsti þukli séra George og Margrétar á kynfærum sínum í nokkur aðgreind skipti, annars vegar í Landakotsskóla og hins vegar í Riftúni. Einn lýsti atvikum þar sem sem séra George og Margrét beittu hann grófu kynferðisofbeldi saman og einn lýsti grófri háttsemi Margrétar þar sem séra George fylgdist með og fróaði sér.

Sú háttsemi sem lýst hefur verið af hálfu Margrétar er að hún hafi tvo til þrjá drengi afklæða sig til skiptis og horfa á hvorn annan og stundum snert kynfæri þeirra með priki, hún hafi þuklað á kynfærum drengs, hún hafi togað dreng á kynfærunum um skólastofuna, haft munnmök við dreng, látið dreng þukla á kynfærum sínum og brjóstum.

Ein frásögn er um að séra George og Margrét hafi látið tvo drengi afklæðast og nudda kynfærum sínum við rass hvors annars og sjúga kynfæri hvors annars á meðan þau horfðu á. Þá eru frásagnir um að Margrét hafi látið drengi hafa munnmök við sig, látið drengi nudda kynfærum sínum við kynfæri sín og reynt að hafa við þá samfarir. Sett fingur í endaþarm drengs þar til blæddi og svo mætti lengi telja.

Sex af þeim níu fyrrverandi nemendum sem sögðu frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu séra George og Margrétar sögðu ofbeldið hafa staðið yfir í langan tíma eða í tvö til sjö ár og jafnvel mest alla skólagöngu viðkomandi í Landakotsskóla og það hafi jafnvel átt sér stað tvisvar til þrisvar sinnum í viku.

Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar komst að þeirri niðurstöðu að kirkjan hefði reynt að þagga niður upplýsingar um andlegt ofbeldi í Landakotsskóla sem átti sér stað á tímabilinu 1946-2003. Þetta kom fram í skýrslu nefndarinnar.

Nefndin var skipuð í ágúst 2011, í kjölfar saka sem bornar voru á fyrrverandi starfsmenn kaþólsku kirkjunnar um andlegt og líkamlegt ofbeldi gagnvart nemendum skólans.

Einstaklingar sem voru í Landakotsskóla á sínum tíma lýsa skelfilegu …
Einstaklingar sem voru í Landakotsskóla á sínum tíma lýsa skelfilegu ofbeldi sem þeir urðu fyrir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Landakotsskóli
Landakotsskóli mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina