„Þetta var fáránlega erfitt færi“

Göngugarparnir Ingþór Bjarnason , Haraldur Örn Ólafsson og Ólafur Örn …
Göngugarparnir Ingþór Bjarnason , Haraldur Örn Ólafsson og Ólafur Örn Haraldsson komust á pólinn á nýársdag 1998. JOS

Ólafur Örn Haraldsson, sem gekk á suðurpólinn árið 1998, ásamt Haraldi Erni Ólafssyni og Ingþóri Bjarnasyni, segir að færið síðustu 100 km á suðurpólinn sé að jafnaði mjög erfitt. Hann segist á sínum tíma hafa skráð í dagbók, sem hann hélt á göngunni: „Fáránleg erfitt færi.“

Haraldur segir að færið á suðurpólnum sé misgott. „Það koma þarna risaskaflar sem Vilborg hefur verið að takast á við síðustu daga. Þegar hún kemst út úr þeim tekur við sléttlendi, þ.e. pólsléttan, en þá verður snjórinn hins vegar alveg fáránlega stamur. Þó að sleðinn hafi lést mikið þá er eins og draga hann í sandi.“

Ólafur segist hafa verið búinn að lesa um þetta áður en hann lagði af stað á suðuskautið. Það sé einhver veðurfarsleg skýring á því hvers vegna snjórinn verði svona erfiður yfirferðar. Hann segir allt benda til að Vilborg sé að takast á við það sama á síðasta áfanganum og þeir þremenningar tókust á við á sínum tíma.

Urðu að bæta við einum degi

Þremenningarnir höfðu upphaflega áætlað að komast á pólinn á gamlársdag 1997, en þeir urðu að bæta við einum degi vegna þess hvað ferðahraðinn datt mikið niður. Þeir voru 51 dag á leiðinni á pólinn.

„Það var einkennilegt að sjá sleðann og sjá hvað hann var orðinn léttur, en samt gekk svona illa að draga hann,“ segir Ólafur þegar hann rifjar upp gönguna síðustu kílómetrana.

Ólafur segir að tilfinningin að komast á leiðarenda hafi einkennst af feginleika og gleði yfir að hafa náð settu mark en líka vissri angurværð yfir því að þetta ævintýri væri á enda.

„Ég hef dáðst mikið að Vilborgu og gleðst yfir því að hún sé að vinna þetta mikla afrek. Við þremenningar ætlum, þegar hún hefur ná settu marki, að senda henni góðar kveðjur,“ segir Ólafur.

Frétt Morgunblaðsins um fyrstu pólfara Íslendinga.

mbl.is