Leifur Örn í grunnbúðum Everest

Fjallagarpurinn Leifur Örn Svavarsson er lagður af stað í efri grunnbúðir Everest, en hann hyggst ganga á tindinn um norðurleiðina, sem er bæði fáfarnari og erfiðari. Stutt myndskeið með leiðinni sem hann gengur á tindinn má sjá hér að neðan.

Einn af sherpunum sem munu fylgja Leifi Erni á fjallið fékk háfjallaveiki í grunnbúðunum í fyrradag og varð í snarhasti að flytja hann neðar. Háfjallaveiki getur verið hið alvarlegasta mál, en eins og kom fram í viðtali mbl.is við Leif Örn áður en hann lagði af stað, þá tekur hann m.a. með sér stinningarlyfið Viagra til að sporna við háfjallaveikinni.

Líkaminn verður að aðlagast hæðinni í hvert sinn

Sherparnir eru vanir þunna loftinu en og því betur í stakk búnir að takast á við hæðina í grunnbúðunum sem eru í 5.200 metra hæð yfir sjávarmáli að sögn Leifs Arnar. Einn þeirra gætti ekki að sér og gaf sér of lítinn tíma til aðlögunnar og það varð honum að falli.

„Það hjálpaði honum lítið að hafa klifið Klifið Everest tvisvar sinnum ásamt því að hafa farið á fleiri 8.000m tinda yfir ævina. Staðreyndin er sú að líkaminn verður að aðlagast hæðinni í hvert sinn,“ segir Leifur Örn á bloggi sínu, þar sem hægt er að fylgjast með ferðum hans.

Leifur Örn kom í neðri grunnbúðirnar á mánudaginn og hefur m.a. nýtt síðustu daga þar við að skipuleggja farangurinn. „Svo tökum við 3 daga í gönguna upp í efri grunnbúðirnar til þess að hækka okkur ekki of skart,“ bloggar Leifur Örn.

Hótel með súrefnisslöngum í grunnbúðunum?

Nú þegar er landslagið sem ber fyrir augu mikilfenglegt að sögn Leifs Arnar. „Á leiðinni er farið í gegnum skarð en vandfundið er betra útsýni yfir Himalaya fjöllin. Everest ber þar hæst en þar við hliðina er Lutsi, 4. hæsta fjall jarðar, Makalu vinstra megin og Cho Oyu hægra megin, 5. og  6. hæstu fjöll jarðar. Þar inn á milli má svo finna um 30 7.000 metra fjöll þannig að á tærum morgni eru fallegri útsýnisstaðir vandfundnir.“

Þegar fram í sækir kann svo að fara að það verði ekki aðeins göngugarpar sem fá að njóta þess útsýnis, því að sögn Leifs Arnar stefnir í talsverða uppbyggingu á svæðinu. Verið er að byggja upp veginn sem liggur í grunnbúðir Everest og meðfram honum verið að reisa rafmagnslínu og staura.

„Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, hér á mögulega eftir að rísa risa hótel, með útsýni yfir hæsta fall jarðar og kannski verða þar súrefnisslöngur í boði fyrir gestina,“ veltir Leifur Örn fyrir sér á blogginu.

Leiðina sem Leifur Örn gengur á tind Everst má sjá hér að neðan:

mbl.is