Ingólfur hitti Messner í grunnbúðunum

Reinhold Messner ásamt Ingólfi Geir Gissurarsyni. Mynd fengin af ferðabloggi …
Reinhold Messner ásamt Ingólfi Geir Gissurarsyni. Mynd fengin af ferðabloggi Ingólfs.

„Það hljóp heldur betur á snærið hjá mér í dag. Reinhold Messner, einhver þekktasti fjallgöngumaður allra tíma, kom hingað í grunnbúðir Everest í dag og tók viðtöl og fleira,“ segir Ingólfur Geir Gissurarson, sem hyggst komast á tind Everest-fjalls.

Þetta kemur fram á ferðabloggsíðu Ingólfs. Hann segir að kvikmyndatökumenn hafi verið með Messner í för en hann er að gera sjónvarpsþátt í tilefni af 70 ára klifuramæli Everest.

„Everest var fyrst klifið svo vitað sé með vissu þann 29. maí 1953,“ skrifar Ingólfur og bætir við að þátturinn verði sýndur 23. maí n.k. í Red Bull TV í Þýskalandi.

„Ég átti smá spjall við kappann og lét taka mynd af okkur til minningar. Hann sagðist hafa komið til Íslands fyrir nokkrum árum og verið mjög hrifinn. Hann spurði hvernig gengi eftir hrunið 2008. Hvort landið væri ekki á uppleið, ég kvað svo vera þótt hægt gangi. Það stæði vonandi til bóta með nýrri ríkisstjórn! Ég spurði hann m.a. hver af tindunum 14 (yfir 8000 metra) hefði verið erfiðastur. En Messner var manna fyrstu til að klífa Everest án aðstoðar súrefnis og sá fyrsti til að klífa alla tindana 14 yfir 8000 metra án aðstoðar súrefnis. Hann sagði að Nanga Parbat (8125 metrar) hefði verið sá erfiðasti og hættulegast hjá sér,“ skrifar Ingólfur.

Þá segir hann að hópurinn muni líklega leggja af stað úr grunnbúðum Everest 16. eða 17. maí „ og náum þá vonandi tindinum ef allt gengur upp 20. eða 21. maí. Búið er að fixa línur alla leiðina upp á topp, Sherparnir kláruðu það 10. maí. Einhverjir eru núþegar búnir að ná toppnum og einhverjir eru á leiðinni. Vindur er helst til of mikill ennþá og okkar leiðsögumenn eru að sirka út að lend í sem minnstri traffík og sem minnstum vindi,“ skrifar hann.

Ingólfur hvílir sig nú, safnar kröftum, nær niður kvefinu og les bækur.

„Ég heyrði í Gumma [ferðafélaganum Guðmundi Stefáni Maríussyni, sem varð að hætta við sökum veikinda] í morgun og hann er kominn til Katmandu. Kveðja til allra heima,“ skrifar Ingólfur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert