Vindaspáin tefur Leif um einn dag

Leifur Örn Svavarsson ákvað í dag að taka sér einn dag til viðbótar áður en hann leggur af stað í efri grunnbúðir á Everest. Honum leist ekki nógu vel á vindaspána fyrir 22. maí, en þá áætlaði hann að standa á tindinum.

Fram kemur á ferðasíðu Leifs að flestir þeirra fjallgöngumanna sem ætla sér að klífa fjallið séu komnir upp í efri grunnbúðir en í ljósi veðurútlitsins fannst Leifi nóg að leggja af stað á morgun. Þannig sparar hann sér dag í kuldanum í efri grunnbúðum.

Gangi allt eftir ætti hann eftir sem áður að geta staðið á tindi þessa hæsta fjalls jarðar um miðja næstu viku. Veðurspáin virðist nokkuð stöðug og breytist lítið milli daga. Auk þess verður fullt tungl 23. maí sem hjálpar til.

Eins og fram hefur komið fer Leifur ekki algengustu leiðina á tindinn heldur upp norðanverða hlíð fjallsins, sem er fáfarnari og erfiðari. Fleiri eru á sömu leið en enginn þeirra hefur náð toppnum ennþá, þótt margir hugsi sér nú til hreyfings og munu einhverjir þeirra reyna um helgina þegar vindinn fer að hægja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert