„Dómarinn var mjög grimmur“

Wikipedia

„Túlkurinn í réttarsalnum sat við hliðina á saksóknaranum og sá hann skrifa niður á blað að fjögurra ára dómur væri ásættanlegur af hálfu ákæruvaldsins,“ segir Þórir Gunnarsson, ræðismaður Íslands í Tékklandi en líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag voru tvær íslenskar stúlkur í dag dæmdar til sjö- og sjö og hálfs árs fangelsisvistar fyrir fíkniefnasmygl í dag.

Þórir segir að dómarinn í málinu hafi ekki viljað taka afstöðu til þess hvort þær fái að losna úr gæsluvarðhaldi eða ekki, og því verða stúlkurnar áfram læstar inni í gæsluvarðhaldi í 23 klukkustundir á sólarhring.

Gætu þurft að bíða í tvö ár

Dómnum var þegar í stað áfrýjað að lokinni dómsuppsögn, en verið er að vinna að þýðingu dómsins. Talið er að þýðing hans muni taka um mánuð. „Við vitum svo ekki hvenær áfrýjunin verður tekin fyrir. Þeir hafa allt að tvö ár frá því að stúlkunum voru birtar ákærurnar,“ segir Þórir.

Foreldrar annarrar stúlkunnar hafi verið viðstaddar dómsuppsöguna í dag, ásamt Þóri og túlki. „Að mínu mati tók dómarinn ranga ákvörðun í þessu máli, mér fannst forsendurnar sem dómarinn gaf ekki réttar og mér fannst hann rugla upplýsingum í málinu,“ segir Þórir. 

Saksóknari talaði ekkert í málinu

Stúlkurnar voru dæmdar til sjö og sjö og hálfs ára fangelsisvistar, en Þórir telur dómana mjög stranga. „Viðurlögin eru mikil því verið er að dæma þær fyrir þátttöku í alþjóðlegum smyglhring. Dómarinn velur í raun strangasta möguleikann sem völ er á,“ segir Þórir.

Í máli þar sem Tékki var dæmdur fyrir að hafa smyglað til landsins 20 kg af svipuðum efnum fékk viðkomandi tíu ára fangelsisdóm, en íslensku stúlkurnar voru teknar með um þrjú kíló.

Þórir segir dómarann í málinu hafa séð um allar spurningar í réttarsalnum. „Það var þannig að saksóknari talaði aldrei í málinu, né kom með spurningar heldur var það dómarinn sem spurði að öllu. Meðdómararnir sögðu mjög fátt, en dómarinn var í raun mjög grimmur,“ segir Þórir að lokum. 

Frétt mbl.is: „Finnst þetta þungur dómur“

Frétt mbl.is: Þungir dómar féllu í Tékklandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina