Skynjar enga iðrun hjá Kaþólsku kirkjunni

Kaþólska dómkirkjan í Reykjavík.
Kaþólska dómkirkjan í Reykjavík. mbl.is/Brynjar Gauti

„Kaþólska kirkjan hefur reynst mér illa í gegnum tíðina og núna sýndi hún það virkilega að hún kann ekki að iðrast,“ segir maður sem beittur var ofbeldi af Margréti Müller og séra Georg um fjögurra ára skeið sem barn í Landakotsskóla.

Honum voru í dag greiddar um 300 þúsund krónur, en kirkjan hefur ítrekað að hún sé ekki bótaskyld. mbl.is hefur heimildir fyrir því að annar úr hópnum, sem beitt var kynferðisofbeldi um þriggja ára skeið, hafi fengið nokkuð hærri bætur eða um hálfa milljón króna. Þá eru sumir sem fá minna en 300 þúsund krónur.

„Þetta er eins og blaut tuska í andlitið. Ég var ekkert að biðja um tugi milljóna en auðvitað vænti maður þess að fá einhverja viðurkenningu á því að ég hafi verið misrétti beittur. Þetta eru mikil vonbrigði,“ segir maðurinn.

Hann segir þessar minningarnar úr æsku sinni í nánast óbærilegar og hann hafi borið varanlegan, andlegan skaða af. Hann var m.a. látinn sofa nakinn í rúmi með séra Georg og veita Margréti Müller munnmök.

Aðeins skaðabótaskyld gagnvart einum

Rúm 2 ár eru síðan skipuð var rannsóknarnefnd Kaþólsku kirkjunnar, eftir að fram komu ásakanir um andlegt og kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum við skóla kirkjunnar fyrr á árum. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sem kom út í fyrra, lýstu 8 af 30 fyrrverandi nemendum skólans sem rætt var við margra ára kynferðislegu ofbeldi.

Í kjölfarið skipaði biskup Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi s.k. fagráð til að meta bótarétt þolenda. Niðurstaða fagráðsins, sem tilkynnt var í síðustu viku, var sú að kirkjan teldist ekki skaðabótaskyld nema í einu máli af 17 sem komu inn á borð til þeirra. Sama dag tilkynntu stjórnendur Kaþólsku kirkjunnar að „endanlegt svar“ hefði verið sent til þessara 17 aðila.

„Einlæg og full hluttekningar“

Þrátt fyrir að teljast ekki skaðabótaskyld nema í einu máli ákvað kirkjan að bjóða fórnarlömbum eingreiðslu „af frjálsum vilja“. Í bréfinu sem þolendur fengu sent í síðustu viku var þó ekki tilgreint hve há sú upphæð kynni að verða, en þeir voru beðnir um að senda bankareikning og kennitölu ef þeir óskuðu þess.

„Framlag okkar er frjálst og hefur ekki í för með sér viðurkenningu á bótaskyldu,“ var ítrekað í bréfi Kaþólsku kirkjunnar. „Með þessum aðgerðum okkar í dag viljum við að þér fallist að að staðfesta endanlega niðurstöðu í þessu máli.“

Kaþólska kirkjan hefur eingöngu tekið við skriflegum fyrirspurnum um málið, jafnt frá þolendum og fjölmiðlum. Fyrirspurn mbl.is, um hversu háar fjárhæðir kirkjan myndi greiða, var ekki svarað en hins vegar tekið fram í skriflegu svari frá lögmanni kirkjunnar að með eingreiðslunni vilji Kaþólska kirkjan sýna að ósk „um fyrirgefningu til handa fórnarlömbum sé einlæg og full hluttekningar gagnvart þeim og fjölskyldum þeirra.“

Þýsk fórnarlömb fengu 5000 evrur

mbl.is fékk jafnframt þær upplýsingar frá kirkjunni að við ákvörðun peningaupphæðarinnar væri m.a. horft til meðferðar sambærilegra mála hjá Kaþólsku kirkjunni í Þýskalandi. Á þeim grunni voru málin flokkuð niður og ákvörðun um eingreiðslu til einstakra fórnarlamba byggð á því.

Kaþólska kirkjan í Þýskalandi boðaði árið 2011 að miðað yrði við 5000 evru lágmark, í miskabætur til fórnarlamba kynferðisofbeldis kirkjunnar manna þar í landi. Þolendur alvarlegustu ofbeldisbrotanna fengu þó hærri bætur. Að auki bauðst kirkjan til að greiða fyrir sálfræðimeðferð fyrir fórnarlömbin. Í öllum tilfellum var um að ræða mál sem fyrnd voru að lögum.

5000 evrur eru ríflega 800 þúsund krónur. Samtök þolenda ofbeldisins í Þýskalandi sögðu þessa upphæð móðgun og hafði þýska dagblaðið Frankfurter Rundschau eftir talsmanni þeirra, Matthias Katsch, að það væri „lágkúrulegt hvernig ríkasta kirkja heims reyndi að koma sér undan málinu“.

Rétt er að taka fram að málin 17 sem fagráð Kaþólski kirkjunnar skoðaði vörðuðu ekki öll kynferðisofbeldi. Í 10 málum voru séra Georg og Margrét Müller, sem bæði eru látin, sökuð um kynferðislega misnotkun. 6 til viðbótar gerðu kröfu um bætur eða afsökunarbeiðni vegna andlegs og annars ofbeldis af hálfu Georgs og Margrétar. Síðasta kröfugerðin varðaði kynferðisleg samskipti tveggja fullorðinna einstaklinga.

Látinn sofa nakinn hjá séra Georg

Maðurinn sem mbl.is ræddi við var sem fyrr segir beittur reglulegu ofbeldi í Landakotsskóla, þegar hann var á aldrinum 7-10 ára. Hann var m.a. tekinn út úr tíma og farið með hann inn á skrifstofu til séra Georgs þar sem leyst var niður um hann og danglað í rass hans og kynfæri á meðan séra Georg fróaði sér.

Hann var líka stundum látinn fylgja Margréti einni upp í risherbergi hennar, þar sem hún lagðist ber að neðan, eða ber undir kjólnum og hélt höfði drengsins að kynfærum sínum. „Eftir þá athöfn var ég þveginn með þvottapoka í framann og gefinn sleikibrjóstsykur eða nammibrauð að launum.“

Alverstar eru þó minningar hans úr sumarbúðunum á Riftúni. Þar valdi Margrét Müller reglulega einn dreng til að verja nóttinni með séra Georg og varð viðmælandi mbl.is nokkrum sinnum fyrir valinu. Segir hann að vaktkona í svefnskála drengjanna hafi ekki virst sjá neitt athugavert við þetta jafnvel þótt, hann hafi barist um á hæl og hnakka ef hann var „valinn“.

Hann var þá háttaður nakinn upp í koju til séra Georgs þar sem fór fram einhvers konar endaþarms samfarir eða nudd af hálfu prestsins gagnvart drengnum, þá 8 og 9 ára gömlum.

Ætlaði aldrei að opna sig um þetta

Hann segist hafa sagt presti og nunnu við kirkjuna frá þessu þegar hann var 11 ára gamall en aldrei hafi neitt verið gert við því. Eftir það ræddi hann þetta ekki við nokkurn mann, nema fyrrverandi eiginkonu sína, þangað til rannsóknarnefnd Kaþólsku kirkjunnar hafði samband við hann að fyrra bragði árið 2011.

„Ég spurði hvort það væri nokkur ástæða til að vera að velta við svona gömlum málum og hvort það væri ekki bara best að láta þetta kyrrt liggja. En á endanum lét ég slag standa, mætti niður í háskóla og gaf vitnisburð fyrir þessari nefnd. Svo þegar biskup kallaði til fagráð til að skoða hvort kirkjan væri bótaskyld þá opnaði ég mig fyrir foreldrum mínum og sagði líka dætrum mínum og sambýliskonu frá þessu. Þau voru náttúrulega í sjokki en hvöttu mig til að fara áfram með þetta mál, sem ég ætlaði mér upphaflega allls ekki að gera.“

Eftir að fagráðið lagði sína skýrslu fyrir biskup í ágúst óskaði maðurinn eftir fundi með stjórnendum kirkjunnar. Það tók raunar tvo tölvupósta, sem aldrei var svarað, og eitt ábyrgðarbréf, að koma þeim fundi á, en það hafðist. Hann segir fundinn að mörgu leyti hafa verið ágætan, en þar hafi biskup og lögmaður kirkjunnar farið vandlega yfir það að kirkjan væri blönk.

„Þeir sögðu að sóknarbörnin væru mikið til erlendir verkamenn og tóku það fram að Vatíkanið hjálpi ekki kirkjum á Norðurlöndum og að ríkið styðji heldur ekki við bakið á Kaþólsku kirkjunni. Á þessum fundi var mér sagt að það yrðu fjárbætur greiddar, en að þær yrðu ekki neinir tugir milljóna.“

Í ljósi þessa segist hann ekki hafa vitað á hverju væri von, en 300 þúsund króna eingreiðslan kom honum engu að síður mjög á óvart. Til samanburðar má nefna að í lögum um sanngirnisbætur, til þeirra sem urðu fyrir misbeitingu á vistheimilum ríkisins s.s. á Breiðavík og Kumbaravogi, er talað um bætur allt að 6 milljónum króna.

Skapi næst að skila þessu

Maðurinn segir að eftir allt þetta tilstand, sem nú hafi staðið í á þriðja ár, sé hin „endanlega niðurstaða“ mikil vonbrigði.

„Okkur var gert afskaplega erfitt fyrir í öllu þessu langa ferli. Nálgunin var sú að maður þurfti alltaf að biðja um allt. Ég þurfti að biðja um fund, biðja um viðtal og biðja um bætur. Allt frestaðist þetta um einhverja mánuði, og þetta er svo það sem maður uppsker.“

Sjálfur hefur hann ekki fengið að sjá rökstuðning fyrir því hvers vegna kirkjan teljist ekki bótaskyld gagnvart honum. Niðurstöðuna telur hann því afar rýra.

„Þetta er ekki einu sinni plástur á bágtið. Þeir kasta í okkur einhverjum brauðmolum, á það að sýna velvild? Þetta eru ekki einu sinni ein mánaðarlaun. Ég er afskaplega hryggur og leiður og mér er skapi næst að skila þessu bara.“

Rannsóknarnefnd Kaþólsku kirkjunar kynnti skýrslu sína í nóvember 2011. Í …
Rannsóknarnefnd Kaþólsku kirkjunar kynnti skýrslu sína í nóvember 2011. Í nefndinni sátu Hjördís Hákonardóttir, Hrefna Friðriksdóttir og Jón Friðrik. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Í Landakotskirkju í Reykjavík.
Í Landakotskirkju í Reykjavík. mbl.is/Golli
Landakotskirkja
Landakotskirkja mbl.is/ÞÖK
Landakotsskóli
Landakotsskóli mbl.is/Jim Smart
mbl.is