Niðurstaða kirkjunnar smánarleg

Landakotsskóla hefur nú verið breytt í sjálfseignarstofnun en Kaþólska kirkjan …
Landakotsskóla hefur nú verið breytt í sjálfseignarstofnun en Kaþólska kirkjan rak skólann áður. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Lögmaður manns úr hópi þeirra 17 sem gerðu kröfu á kaþólsku kirkjuna á Íslandi vegna ofbeldisbrota segir að bæturnar sem hann fékk greiddar í gær séu skammarlegar. Hann hafi þó fyrst og fremst viljað viðurkenningu af hálfu kirkjunnar á brotunum, en kirkjan tekur ekki afstöðu til einstakra mála.

mbl.is sagði frá því í gær að Kaþólska kirkjan hafi greitt eingreiðslur, á bilinu frá nokkrum tugum þúsunda upp um hálfa milljón, inn á bankareikninga þeirra 17 sem gerðu kröfur á kirkjunnar vegna andlegs, kynferðislegs eða annars ofbeldis sem börn.

Kirkjan hefur ítrekað bæði í fréttatilkynningu og bréfi til þolendanna með eingreiðslunum felist engin viðurkenning á bótaskyldu, heldur séu þær gerðar af frjálsum vilja. Annar maður úr hópnum, sem mbl.is ræddi við í gær, sagði eingreiðsluna eins og blauta tusku í andlitið. „Kaþólska kirkjan hefur reynst mér illa í gegnum tíðina og núna sýndi hún það virkilega að hún kann ekki að iðrast.“ 

Vitað frá upphafi að kirkjan væri ekki bótaskyld

Ísleifur Friðriksson var sá sem fyrstur rauf þögnina um ofbeldið gagnvart börnum innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Það gerði hann í nafnlausu viðtali í Fréttatímanum árið 2011, þar sem hann lýsti kynferðislegu og andlegu ofbeldi sem hann varð fyrir af hálfu séra Georg og Margrétar Müller alla hans skólagöngu í Landakotsskóla, frá 7 til 13 ára aldurs.

Í gær fékk Ísleifur greiddar 170 þúsund krónur frá kaþólsku kirkjunni. Í viðtali við Kastljós sagðist hann ekki ætla að þiggja þennan pening enda sjái hann engan tilgang með þessu annan en að kirkjan sé að fegra sjálfa sig.

„Það fylgir enginn hugur með,“ sagði Ísleifur í Kastljósinu. Hann benti á að það hafi frá upphafi verið vitað mál að þolendurnir ættu engan bótakröfurétt, enda málin fyrnd. Það hafi hinsvegar verið að beiðni biskups sem hann og hin 16 skiluðu inn kröfu um bætur, en ljóst sé nú að aldrei hafi verið nein löngun hjá kirkjunni til að mæta þeim kröfum.

„Kirkjan átti á sínum tíma möguleika á því að afgreiða þetta á fallegan og elegant hátt,“ sagði Ísleifur. Það hafi hins vegar ekki verið gert. Hann sagði að ekkert hafi komið út úr nefndum kirkjunnar annað en það sem vitað var fyrir, enda hafi honum og öðrum þolendum alltaf verið það ljóst að ekki væri hægt að sanna neitt.

„Hvað ætluðu þeir að sanna? Það var enginn inni í þessum herbergjum þar sem við vorum pínd [...] Það var ekkert hægt að sanna. Ég vildi bara að kirkjan bæri ábyrgð á þessu. Ég ætlaði að fá smá frið í hjartað.“

Ósmekklegur kattarþvottur

Guðrún„ Björg Birgisdóttir, lögmaður Ísleifs, segir það undarlegt að kaþólska kirkjan hafi tekið svo langan tíma til að fara yfir málið þegar niðurstaðan, eins og hún horfi við hennar skjólstæðingi, sé í raun engin. 

„Í bréfinu sem hann fékk frá þeim er ekkert sem útskýrir hvað þeir voru að gera í þessi þrjú ár. Ég veit ekki hvers vegna þeir telja sig ekki vera bótaskylda gagnvart honum. Það kemur ekkert fram um það. Það segir ekkert hvort honum sé trúað eða ekki.“

Rannsóknarnefnd Kaþólsku kirkjunnar komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni, sem kom út í nóvember 2012, að Pétur Bürcher biskup hafi borið að tryggja að mál Ísleifs fengi frekari rannsókn og meðhöndlun þegar kirkjan fékk fyrst upplýsingar um það. Með því að aðhafast ekki hafi biskup vanrækt skyldur sínar.

Ekkert er fjallað um þetta í hinu „endanlega svari“ sem Ísleifur fékk sent í síðustu viku. Þar er hinsvegar tíundað að kirkjan hafi á undanförnum árum „lagt mikla vinnu, krafta og fjármuni í þetta mál, einkum hvað snertir nefndirnar báðar og starfsfólk.“

Þá segir að „þrátt fyrir“ þessa miklu vinnu sé kirkjan staðráðin í að sýna „vott um velvilja“, með eingreiðslu. Upphæð hennar var ekki nefnd í bréfinu en reyndist síðan vera 170 þúsund krónur sem fyrr segir.

Guðrún Björg segir þessi orð kirkjunnar ósmekkleg og dæmigerðan kattarþvott.

Kirkjan aldrei haft beint samband

Ísleifur sagði í Kastljósinu í gær að frá því hann opnaði fyrst á þessi mál, með blaðaviðtalinu 2011, hafi enginn frá Kaþólsku kirkjunni talað við hann beint, einungis hafi verið höfð samskipti við hann gegnum lögfræðileg bréf. Í síðasta bréfinu er tekið fram að kirkjunnar menn séu „ævinlega reiðubúnir að veita yður sáluhjálplega aðstoð“.

Í september síðast liðnum óskaði Guðrún Björg fyrir hans hönd eftir afriti af skýrslu fagráðsins um bótakröfu hans. 9 vikum síðar barst þeim skriflegt svar um að kirkjan myndi hvorki tjá sig né taka formlega afstöðu til einstakra mála.

„Við vorum ekki að biðja um afstöðu heldur niðurstöðu, einhverja umfjöllun um málið,“ segir Guðrún Björg. Sjálfur sagði Ísleifur í Kastljósi í gær að hann sjái mikið eftir því að hafa yfirhöfuð farið af stað með málið fyrst þetta var niðurstaðan. „Ég er brotinn maður eftir sem áður.“

Ísleifur Friðriksson sagðist í Kastljósinu í gærkvöld ekki ætla að …
Ísleifur Friðriksson sagðist í Kastljósinu í gærkvöld ekki ætla að þiggja bæturnar sem Kaþólska kirkjan á Íslandi býður honum. Skjáskot/Kastljós
Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar skilaði sinni skýrslu með áfellisdómi árið 2011.
Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar skilaði sinni skýrslu með áfellisdómi árið 2011. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Dómkirkja Krists konungs í Landakoti.
Dómkirkja Krists konungs í Landakoti. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina