Ákæruvaldið að ónýta málatilbúnað

Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarssonar eru meðal ákærðra í …
Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarssonar eru meðal ákærðra í málinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ákæruvaldið búið að ónýta málatilbúnaði sinn,“ segir Jóhannes Bjarni Björnsson, verjandi Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi.

„Það verður að hafa það í huga að þegar maður er ákærður er honum skipaður verjandi til að tryggja honum réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Hann á ekki að þurfa að verjast öðru en því sem eru sönnunargögn í máli og rannsakendur og verjendur afla. Hlerun sem er lögð fram í þessu máli er ekki sönnunargagn í málinu.“

Hann segir samtalið ekki vera sönnunargagn um eitt eða neitt í þessu máli. „Hvorki sá sem er hleraður, eða verjandinn sem hann talaði við, eru vitni. Þessu er bara ætlaður einn tilgangur, og það er að draga úr trúverðugleika verjanda. Það er einn tilgangur. Þegar ákærendur og rannsakendur fara svona með sínar heimildir eru þeir að ónýta mál gegn þeim sem þeir brjóta gegn.“ segir Jóhannes Bjarni til stuðnings frávísunarkröfu sinni.

Ákæra svo óskýr að ekki er hægt að taka til varna

Sex af níu sakborningum hafa gert á kröfu að máli sérstaks saksóknara gegn þeim verði vísað frá dómi, en þeir eru sakaðir um stórfellda markaðsmisnotkun í aðdraganda bankahrunsins. Málflutningur um kröfuna stendur yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Jóhannes Bjarni telur heimfærslu til lagaákvæða og verknaðarlýsingar í ákæru saksóknara svo óskýra að það varði frávísun, því ekki sé hægt að taka til varna við þessum málflutningi ákæruvaldsins.

Hann vísar til frávísunarkröfu í svokölluðu Al Thani-máli. Dómurinn leggur þar áherslu á þau skilyrði sem ákæra þarf að uppfylla, m.a. þannig að það sé ljóst fyrir hvað menn séu ákærðir. „Málið á að vera þannig framsett að það eigi að vera hægt, af ákærunni einni, hægt að gera sér grein fyrir grundvelli málsins.“

„Það er eitt sem hægt er að skilja, að það er verið að ákæra fyrir markaðsmisnotkun.“ Annað telur hann hæpið að skilja megi af ákærunni.

„Er verið að ákæra fyrir að það hafi átt sér stað markaðsmisnotkun á hverjum degi af þeim sem tilgreint er í ákæru, og að þetta séu þá framhaldsbrot, eða að þetta sé eitt brot. Hvenær var það fullframið og hvernig var það skilgreint?

Hann telur ekki hægt að lýsa refsiverðri háttsemi sem prósentu af viðskiptum á einhverju tímabili, en Jóhannes hann telur að í ákærunni sé ekki nægilega vel tilgreint hvaða einstöku viðskipti hafi verið hin meinta markaðsmisnotkun. „Þú fórst stundum yfir línuna, en við (ákæruvaldið) ákærum þig fyrir alla dagana. Það er ekki hægt að verjast svona ákæru.“

Voru menn með takka eða sveif?

Í ákærunni er sagt að verðmyndun hlutabréfa var handstýrt. Hann segir að þar sé talað um að sakborningar hafi saman handstýrt genginu. „Hvað þýðir það? Voru menn ekki að setja fram einhver tilboð sem mynduðu eitthvað gólf, en núna eru þeir allir saman að handstýra einhverju. Voru þeir með einhvern takka eða einhverja sveif?“ spyr Jóhannes Bjarni.

Hann segir ákæruvaldið ítrekað vísa til ýmissa hlutfalla, sem hann telur ekki hafa neina þýðingu, þar sem ekki hafi verið bent í að einhver tiltekin viðskipti hafi verið markaðsmisnotkun. „Þú getur reiknað eitthvað sem meðaltal af fylgi Ástþórs Magnússonar í forsetakosningum, og þannig fengið eitthvað hátt meðaltal,“ en honum þykir ákæruvaldið hafa ekki vandað til verks við gerð ákærunnar, eins og ljóst er af máli hans.

Hann ítrekar að verjandi eigi að geta miðað greinargerð sína og varnir við ákæru ákæruvaldsins.  „Það er ekki hægt að ætlast til þess að maður skili greinargerð með vörnum gegn ákæru sem maður skilur ekkert í,“ segir hann.

Þá telur hann ekki hægt að ákæra skjólstæðing sinn fyrir brot á íslenskum lögum vegna einhvers sem þeir eiga að hafa gert í Svíþjóð. „íslensk lög um verðbréfaviðskipti gilda ekki um viðskipti í Svíþjóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert