Fjártjónshætta ósönnuð í Vafningsmáli

Lárus Welding ásamt Óttari Pálssyni, verjanda sínum.
Lárus Welding ásamt Óttari Pálssyni, verjanda sínum. mbl.is/Styrmir Kári

Hæstiréttur taldi að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna að lánveiting Glitnis til Milestone 8. febrúar 2008 hefði falið í sér verulega fjártjónshættu. Því var ekki öllum skilyrðum fullnægt til að refsa Lárusi Welding og Guðmundi Hjaltasyni. Sannað þótti að þeir hefðu samþykkt lánveitinguna.

Eins og kom fram á mbl.is fyrr í dag sýknaði Hæstiréttur þá Lárus Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og Guðmund Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs sama banka, af ákæru um umboðssvik. 

Þeir voru ákæðir fyrir að hafa ákveðið og samþykkt 102 milljóna evra peningamarkaðslán til Milestone 8. febrúar 2008. Lánið til Milestone var veitt frá 8. febrúar til 11. febrúar 2008 en þá var það greitt upp með því að bankinn lánaði upphæðina til félagsins Vafnings og Vafningur greiddi bankanum upphæðina til baka.

Með lánveitingunni til Milestone voru þeir sagðir hafa misnotað aðstöðu sína og gerst sekir um umboðssvik.

Í dómi Hæstaréttar er fallist á með ákæruvaldinu og Héraðsdómi Reykjavíkur að þeir hafi misnotað aðstöðu sína og veitt Milestone lánið. Hins vegar er skilyrði þess að sakfellt verði fyrir umboðssvik, þegar ekki liggur fyrir að tjón hafi í raun orðið vegna háttseminnar, að með henni hafi verið valdið verulegri fjártjónshættu.

Þetta skilyrði taldi Hæstiréttur að hefði ekki verið uppfyllt í málinu. Þannig hafi ákæruvaldið ekki upplýst hvaða tryggingar Glitnir hafði vegna lána sem bankinn hafði veitt Milestone og ekki lagt fram upplýsingar um hvert hafi verið verðmæti þeirrar tryggingar sem bankanum var afhent 8. febrúar 2008 í tengslum við lánveitinguna.

Hæstiréttur taldi því að ákæruvaldið hefði ekki axlað sönnunarbyrði sína fyrir því að háttsemi Lárusar og Guðmundar hefði falið í sér verulega fjártjónshættu fyrir Glitni og voru þeir sýknaðir.

Þá greiðist allur sakarkostnaður málsins í héraði úr ríkissjóði og eins allur áfrýjunarkostnaður. Samtals gerir það 22.464.500 krónur.

Frétt mbl.is: Lárus og Guðmundur sýknaðir

Frétt mbl.is: Vafningsmálið varð Milestone-málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert