Vafningsmálið varð Milestone-málið

Hólmsteinn Gauti, saksóknari, lengst til hægri, ásamt aðstoðarmönnum sínum.
Hólmsteinn Gauti, saksóknari, lengst til hægri, ásamt aðstoðarmönnum sínum. mbl.is/Árni Sæberg

Sérstökum saksóknara varð ekki að ósk sinni þegar dómur féll í svonefndu Vafningsmáli í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þó svo fv. bankastjóri Glitnis og fv. framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans væru sakfelldir er himinn og haf á milli þeirrar refsingar sem krafist var og hæfilegrar, að mati dómara.

Þegar horft er til aðalmeðferðar í málinu þarf dómur fjölskipaðs héraðsdóms ekki að koma á óvart. Segja má að á þeim dögum sem aðalmeðferðin stóð yfir hafi málið breyst úr Vafningsmálinu og í Milestone-málið. Eða eins og segir í niðurstöðu dómsins: „[Þ]ó svo ákæra miðist einungis við að ein tiltekin lánveiting til Milestone ehf. hafi verið refsiverð [...] [þ]á er jafnframt til þess að líta að ákæra tengir tjón samkvæmt hinni refsiverðu háttsemi ranglega við lánveitingu til Vafnings ehf., sem leitt hefur til þess að vörn ákærðu hefur orðið mun umfangsmeiri en efni stóðu til.“

Þessi orð í niðurstöðu dómsins eru í takt við spurningar Skúla Magnússonar héraðsdómara, meðal annars í miðjum málflutningi Hólmsteins Gauta Sigurðssonar, saksóknara hjá sérstökum saksóknara. Þegar hér er komið við sögu var Hólmsteinn að fara yfir eignarhald á Vafningi. „Skúli Magnússon spyr: Hvaða þýðingu hefur það fyrir málið hvernig eignarhaldi Vafnings er háttað? Það er ekki ákært fyrir lán til Vafnings, heldur Milestone.“

Síðar spurði Skúli beint út: „Af hverju er ekki ákært fyrir lán til Vafnings.“

Vafningur greiddi upp lánið

Til upprifjunar þá voru þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, ákærðir fyrir að hafa ákveðið og samþykkt 102 milljóna króna evra peningamarkaðslán til Milestone 8. febrúar 2008.

Lánið til Milestone var veitt frá 8. febrúar til 11. febrúar 2008 en þá var það greitt upp með því að bankinn lánaði upphæðina til félagsins Vafnings og Vafningur greiddi bankanum upphæðina til baka.

Lárus og Guðmundur neituðu sök og sögðust þann 8. febrúar aðeins hafa samþykkt lánveitingu til Vafnings, sem var í samræmi við samþykkt áhættunefndar bankans nokkrum dögum áður. Þeir sögðust ekki hafa tekið ákvörðun um að hafa lánað til Milestone en útilokuðu ekki að undirmenn þeirra hefðu tekið ákvörðun um það án þeirra vitundar.

Úr fimm árum í níu mánuði

Saksóknari fór fram á fimm og hálfs árs fangelsi yfir Lárusi og fimm ára fangelsi yfir Guðmundi. Héraðsdómur taldi hæfilega refsingu níu mánaða fangelsi og að sex þeirra séu bundnir skilorði. Og um leið og niðurstaðan varð ljós mátti sjá bloggara og álitsgjafa býsnast yfir dómnum. Saksóknari sjálfur viðurkenndi að dómurinn væri vonbrigði.

En lítum á ákæruna. Þar eru þeir Lárus og Guðmundur ákærðir fyrir að lána Milestone án trygginga eða ábyrgðar. Og á þetta féllst dómurinn ekki. „Þann dag hafði bankinn allsherjarveð í hlutabréfum í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. að nafnverði 349.999.999 krónur, samkvæmt handveðsyfirlýsingu Milestone ehf. frá 8. febrúar 2008, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og öðrum fjárskuldbindingum Milestone ehf. þá eða síðar við Glitni banka hf. [...] Þó svo að vafi leiki á um hvort allsherjarveð þessi hafi verið nægjanleg fyrir þeirri viðbótarskuldbindingu sem fólst í lánveitingunni til Milestone ehf. umræddan föstudag liggur engu að síður fyrir að bæði tryggingar og ábyrgðir voru til staðar.“

Saksóknari sagði við málflutning að fjártjónshætta Glitnis hefði verið gríðarleg. Brotið hefði verið fullframið með því að lána Milestone og þó lánið hafi verið greitt upp með láni til Vafnings hafi ekkert af fjármununum endurheimst. Þetta féllst dómurinn ekki heldur á, meðal annars vegna þess að sérstakur saksóknari ákærði ekki fyrir lánið til Vafnings. „Því er þannig ekki haldið fram af ákæruvaldinu að Vafningur ehf. hafi fallið undir félagasamstæðu Milestone ehf. eða að lánveitingin 11. febrúar 2008 til Vafnings ehf. hafi verið refsiverð. Eru þannig engin efni til að líta til annarrar háttsemi ákærðu en þeirrar að veita Milestone ehf. peningamarkaðslán frá föstudeginum 8. febrúar 2008 til mánudagsins 11. sama mánaðar.“

Þegar fjártjónshættan af lánveitingunni var metin gat dómurinn því aðeins litið til þeirrar áhættu sem fylgdi að lána Milestone frá föstudegi til mánudags. „Verður það því ekki metið ákærðu til refsileysis þótt hættan á greiðslufalli Milestone ehf. væri metin lítil að teknu tilliti hins skamma lánstíma og áhættumatsflokkunar Milestone ehf. í gögnum Glitnis banka hf.“

Enginn persónulegur ávinningur

Héraðsdómur taldi sannað að Lárus og Guðmundur hefðu ákveðið og samþykkt lánið til Milestone. Þannig hafi þeir farið gegn lánareglum bankans og út fyrir heimildir í störfum sínum. Þeir hafi skuldbundið bankann með ólögmætum hætti og þannig hafi þeir gerst sekir um umboðssvik.

Þar sem aðeins hafi verið um að ræða lán yfir helgi og þar með hafi verið um takmarkaða fjártjónshættu að ræða geti sakir þeirra þó ekki talist miklar. Þá segir í niðurstöðu dómsins: „Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærðu leituðust ekki við að afla sjálfum sér beins persónulegs ávinnings með brotum sínum og töldu háttsemina þjóna hagsmunum Glitnis banka hf. og íslenska fjármálakerfinu. Svo sem áður greinir hafa ekki verið færð fyrir því viðhlítandi rök að þessi háttsemi ákærðu hafi út af fyrir sig leitt til fjártjóns fyrir Glitni banka hf.“

Dómurinn gagnrýnir hversu mikið málið var að vöxtum miðað við að ákæran miðist aðeins við þessa einu lánveitingu, sem stóð yfir eina helgi. Sökum þessa og fleiri atriða var ríkissjóði gert að greiða helming málsvarnarlauna Lárusar og Guðmundar og annan málskostnað. Helmingur málsvarnarlauna Lárusar og Guðmundar nam rúmum níu milljónum króna. Ekkert kemur hins vegar fram um hvað annar kostnaður er hár, en ljóst er að hann er umtalsverður.

Að öllu þessu sögðu er ekki með góðu móti hægt að segja að um sigur sérstaks saksóknara hafi verið að ræða, þó þeir Lárus og Guðmundur hafi verið sakfelldir. Þarna hafi verið um tiltölulega einfalt mál að ræða sem gert var flókið af embættinu.

Svo er auðvitað að sjá hvað Hæstiréttur segir, því Vafningsmálinu/Milestone-málinu er ekki enn lokið.

Lárus Welding stendur, en við hlið hans eru lögmenn og …
Lárus Welding stendur, en við hlið hans eru lögmenn og svo Guðmundur Hjaltason á endanum. Styrmir Kári
Merki Milestone
Merki Milestone
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert