Fimm ár fyrir lán yfir helgi

Hólmsteinn Gauti, saksóknari sérstaks sakóknara í skikkjunni, og aðstoðarmenn hans.
Hólmsteinn Gauti, saksóknari sérstaks sakóknara í skikkjunni, og aðstoðarmenn hans. Styrmir Kári

Lán Glitnis banka til Milestone sem veitt var föstudaginn 8. febrúar 2008 og greitt upp mánudaginn 11. febrúar 2008 gæti orðið til þess að fyrrverandi forstjóri bankans verði dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi. Í fyrsta stóra máli sérstaks saksóknara skal línan lögð.

Aðalmeðferð í málinu lauk síðdegis í dag en hún hófst á mánudag fyrir viku. Í dag fór fram munnlegur málflutningur og stóð hann frá klukkan níu í morgun til rúmlega fimm síðdegis. Aðilar máls virtust lúnir þegar yfir lauk.

Eins og komið hefur fram er málið höfðað af sérstökum saksóknara á hendur Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og Guðmundi Hjaltasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs sama banka. Þeim er gefið að sök umboðssvik með því að hafa ákveðið og samþykkt 102 milljóna evra peningamarkaðslán til Milestone föstudaginn 8. febrúar 2008.

Erfitt að finna sönnunargögn

Fyrstur til að flytja mál sitt í dag var Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara. Hann byrjaði rólega og fór yfir almennt yfir efnahagsbrot. Benti á að vægi skjallegra gagna væri mikilvægari en þegar um önnur brot á við. Sagði lítinn hluta slíkra brota tilkynntan lögreglu og enn minni hluta enda fyrir dómi.

Hann sagði efnahagsbrot veikja efnahagslíf, gengisfella traust manna á því og minnka vilja manna til að fjárfesta. Ennfremur sagði Hólmsteinn að það væri ekki séríslenskt að fjármálakrísa geri vart við sig á Íslandi. Aðrar þjóðir hafi gengið í gegnum það sama. Reynsla Norðmanna sé sú að erfitt sé að finna sönnunargögn um efnahagsbrot, sem séu falin, og vitni veiti sjaldnast framburð um brotin.

Að loknum inngangi fór hann stuttlega yfir peningamarkaðslán og þær reglur sem giltu innan Glitnis um þau lán. Hann sagði að samkvæmt þeim reglum lutu lánin almennum lánareglum bankans. Þær reglur kveði á um útlánamörk og heimild til útlánatöku. Mörkin voru 17% af eiginfjárhlutfalli bankans.

Peningamarkaðslánið til Milestone, sem ákært er fyrir, taldist hluti af heildar áhættustöðu bankans og urðu að rúmast innan heimildar.

Kannast við að samþykkja útgreiðslu

Eins og svo oft hefur verið farið yfir er forsaga málsins sú að félagið Þáttur International var með lán hjá fjárfestingabankanum Morgan Stanley. Að veði voru hlutabréf í Glitni, um 7% þegar Morgan Stanley ákvað að gengisfella lánið yrði það ekki greitt. Og það skyldi greiða 8. febrúar 2008.

Þáttur tengdist Milestone en síðarnefnda félagið ábyrgðist fjárhagslegar skuldbindingar þess fyrra.

Óumdeilt er í málinu að Glitnir veitti Milestone 102 milljónir evra um miðjan dag 8. febrúar og var því ráðstafað inn á evrureikning Milestone og í beinu framhaldi var lánið greitt.

Saksóknari benti á að Lárus og Guðmund kannist við að hafa samþykkt útgreiðslu lánsins umræddan dag en neiti að hafa gefið leyfi fyrir því að lánið færi til Milestone. Þeir hafi haldið fram að útgreiðsla lánsins til Milestone hafi verið framkvæmd án þeirra heimildar eða vitneskju.

Tilgangurinn skýr

„Ákæruvaldið telur sönnunargögn sýna að lánið hafi ávallt átt að vera Milestone til framdráttar. [...] Raunverulegur tilgangur lánveitingarinnar er skýr sama hvaða formflækjur voru undirbúnar á undan,“ sagði Hólmsteinn Gauti.

Hann vísaði til tölvupóstar sem Lárus sendi Guðmundi 31. janúar 2008 sem varðaði gjaldfellingu Morgan Stanley. Í því kom fram hjá Lárusi að um væri að ræða mál sem bankinn þyrfti að taka þátt í að leysa. Hann velti því upp hvort hægt væri að lána Milestone til styttri tíma og hvort félagið gæti selt fasteignir til að greiða til baka.

„Með þessum tölvupósti kemur skýrt fram yfirlýsing Lárusar Welding um að Glitnir muni leysa þetta mál með Milestone og upp frá því var unnið því markmiði innan bankans.“

Lárus með málið í sínum höndum

Hólmsteinn vitnaði svo í annan tölvupóst frá Lárusi til Guðmundar frá 3. febrúar 2008 þar sem hann spurði um stöðu málsins. „Lárus er greinilega með málið í sínum höndum,“ sagði Hólmsteinn.

Starfsmenn á fyrirtækjasviði bankans fengu það hlutverk að undirbúa lánveitinguna. Kynning var haldin fyrir áhættunefnd bankans 5. febrúar 2008 og var þar rætt um tryggingar að leyst verði úr fjármögnun lánsins. Daginn eftir fundaði áhættunefnd bankans á ný og samþykkti að lána 102 milljónir evra til óstofnaðs félags, Vafnings. Inn í það skyldu renna eignir, m.a. skýjakljúfur í Macau.

Saksóknari sagði að yfirlýstur tilgangur þess að lána Vafningi hafi verið að lána félagi utan við Milestone, vegna þess að óheimilt var að lána því félagi án þess að stjórn bankans heimilaði það. Hefði lánið verið veitt Milestone væru útlán til þess komin yfir 17% af eiginfjárhlutfalli bankans, sem var óheimilt.

„Ekkert liggur fyrir um að stjórn bankans hafi átt nokkra aðkomu að málinu og ekki að slíkt hafi staðið til. Augljóst var hins vegar að það voru hagsmuni Milestone sem átti að tryggja,“ sagði Hólmsteinn og bætti síðar við að Milestone hefði átt um 75% hlut í Vafningi, í gegnum beint eða óbeint eignarhald.

Þá reyndar spurði Skúli Magnússon, héraðsdómari, hvers vegna ekki hefði verið ákært fyrir lánið til Vafnings, en fátt var um svör.

Forsendur brostnar fyrir sjö

Föstudagurinn 8. febrúar 2008 rann upp. Hólmsteinn Gauti sagði að strax fyrir klukkan sjö um morgun hefði Guðmundi Hjaltasyni verið það ljóst að ekki væri hægt að lána Vafningi þann dag. Það hafi komið fram í tölvupósti sem hann sendi Lárusi kl. 6.59.

Áfram hafi þó verið unnið að lánamáli Vafnings, þó forsendur hafi ekki verið fyrir hendi. „Sú staðreynd að haldið var áfram með lánamálið sýnir að áherslan var á að tryggja lánið færi til Morgan Stanley þennan föstudag, óháð því hvernig lánið væri afgreitt,“ sagði saksóknari.

Hann sagði gögn málsins gefa skýra mynd af því sem gerðist umræddan dag. Forsendur lánsins voru brostnar, fjármögnun þess gekk erfiðlega, erfiðlega gekk að fá undirskriftir á veðskjöl og erfiðlega gekk að færa eignir inn í félagið.

„Augljós skýring er að þær tafir sem voru á því að færa eignir inn í Vafning urðu til þess að Glitnir treysti sér ekki til að lána félaginu. Skipti þá engu að Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason voru búnir að undirrita lánasamninginn. Sá samningur var lítils virði á meðan félagið var eignalaust.“

Engin þörf á undirskriftum

Á svonefndu ádráttarskjali lánasamningsins við Vafning voru hripuð niður greiðslufyrirmæli um peningamarkaðslán til Milestone, yfir nótt. Á sama blað voru undirskriftir Lárusar og Guðmundar. „Óumdeilt er í málinu að ákærðu undirrituðu ádráttarskjalið og það kvað á um peningamarkaðslánveitingu til Milestone. [...] Þeir kannast við að hafa greitt út til Morgan Stanley en ekki að lánveitingin hafi farið til Milestone,“ sagði Hólmsteinn og bætti við þeim rökum Lárusar og Guðmundar að skjalinu hefði verið breytt eftir að þeir skrifuðu undir það.

Hann sagði allt benda til þess að skrifað hafi verið undir skjalið á þeim tíma sem lánið var greitt út. Undirritanirnar hafi ekki getað þjónað öðrum tilgangi en að heimila peningamarkaðslán til Milestone. „Það var hvorki þörf á því að útbúa skjalið né undirrita það af þeim Lárusi og Guðmundi,“ sagði Hólmsteinn og vísaði í að ádráttarskjöl séu fyrir lántakendur og undir þau sé venjulega ekki skrifað.

Molnaði undan lánveitingunni

Hólmsteinn sagði afar ótrúverðugt að Lárus og Guðmundur hefðu ekki vitað af peningamarkaðsláninu fyrr en við yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara. Gögn málsins beri með sér að þeir hafi komið að öllum öðrum þáttum málsins, bæði fyrir og eftir lánið til Milestone. Þeir hafi verið að fullu meðvitaðir um þá atburðarrás sem lauk með því að Milestone var veitt peningamarkaðslán, í miklum flýti og með mjög óvenjulegum hætti.

Eftir útgreiðslu lánsins hafi svo verið unnið áfram að lánamáli Vafnings. Lauk því með að Glitnir lánaði Vafningi mánudaginn 11. febrúar 103 milljónir evra. Var þá lán Milestone við Glitni greitt upp að fullu.

Saksóknari ber við að Lárus og Guðmundur hafi verið lykilmenn í atburðarrásinni. Allan föstudaginn hafi verið molna undan lánveitingunni til Vafnings og þeir leitt málið allan þann dag. Ekki hafi verið haldinn fundur í áhættunefnd heldur þeir tekið ákvörðun utan fundar um að lána til Milestone.

Alvarlegt trúnaðarbrot

Að sögn saksóknara var lánveitingin veitt án heimildar og án trygginga. Ákvörðun sem þessa hefði þurft að bera undir stjórn bankans en það hafi ekki verið gert. „Stjórn bankans hefði ábyggilega gert alvarlegar athugasemdir við þetta lán. [...] Öll atburðarrásin ber það með sér að ákærðu vildu forðast það eins og heitan eldinn að bera þetta undir stjórn heldur keyra þetta í gegn í flýti og stofna fé bankans í stórfellda hættu.“

Hann sagði þá vörn að komin hefði verið á lánasamningur við Vafning engu breyta enda hafi það verið eignalaust félag á þessum tíma. Brotið hafi verið fullframið með því að lána Milestone og ekkert hafi verið endurheimt af þeim peningum sem lánaðir voru. Hann sagði allar greiðslur eða endurgreiðslur hafa falist í nýjum lánveitingum frá Glitni.

Hólmsteinn sagði sannað að ákærðu hefðu brotið gegn lánareglum bankans með lánveitingunni. Brotin felist í því að þeir misnotuðu aðstöðu sína innan bankans og væri um alvarlegt trúnaðarbrot að ræða. Heimildarlaus ráðstöfun á gríðarlegum fjármunum hefði leitt til fjártjónshættu fyrir bankann og langstærsti hluti lánsins sé tapaður. Þó þeir hafi ekki auðgast persónulega sé brot þeirra stórfellt og sakir miklar. Því sé refsing hæfileg fimm og hálfs árs fangelsi yfir Lárusi og fimm ár yfir Guðmundi.

Síðar í kvöld verður vikið að málflutningi verjenda Lárusar og Guðmundar.

Guðmundur Hjaltason, Lárus Welding og verjendur í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Guðmundur Hjaltason, Lárus Welding og verjendur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Morgunblaðið/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert