Missti þrjá vini úr krabbameini

Vinir Villa söfnuðu mestu í liðakeppninni í ár.
Vinir Villa söfnuðu mestu í liðakeppninni í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við misstum þrjá samstarfsfélaga úr krabbameini á síðasta ári og með þessu vorum við að halda uppi minningu þeirra allra í hans nafni,“ segir Hreggviður Símonarson, meðlimur mottuliðsins „Vinir Villa“ en þeir hrepptu fyrsta sætið í liðakeppni Mottumars.

Lokahóf átaksins var haldið í Hörpu í gærkvöldi og voru veitt verðlaun fyrir fegurstu mottuna og þrjú efstu sætin í liða- og einstaklingskeppni.

Í liðinu var hópur góðra vina og samstarfsfélaga Vilhjálms Óla Valssonar, sigurvegara Mottumars 2013, sem lést af völdum krabbameins þann 30. mars 2013 eða einungis um viku eftir að keppni lauk. Hann var nýhættur í árangurslausri meðferð gegn vélindakrabbameini þegar söfnunin stóð yfir og skipti hún hann því miklu máli.

Allir liðsmenn „Vina Villa“ eru annaðhvort núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Landhelgisgæslunnar og unnu þeir allir með Vilhjálmi á einhverjum tímapunkti. Hreggviður segir tvo aðra samstarfsmenn sína hafa látist af völdum krabbameins á síðasta ári. „Við misstum þrjá góða vini á síðasta ári. Það var ansi stór biti úr vinnustaðnum og það má því segja að málefnið hafi verið okkur afar hugleikið.“

Hann segir það alltaf vera gleðilegt að minnast Vilhjálms. „Hann var mikill gleðigjafi og því er alltaf gott að hugsa til hans.“

Renndu blint í sjóinn

Hreggviður segir þá félaga hafa rennt nokkuð blint í sjóinn þegar þeir ákváðu að taka þátt. Stuðningurinn kom töluvert á óvart. „Við vissum ekkert hvernig þetta myndi ganga, en ákváðum þó að slá til og sjá hvað myndi gerast. Móttökurnar voru svo langt fram úr okkar björtustu vonum.“

Markmið þeirra var að safna sömu upphæð og Vilhjálmur vann með í Mottumars í fyrra, eða 1.639.000. krónum. Endanleg upphæð sem safnaðist var 1.223.000 krónur en það var hæsta upphæð sem keppandi safnaði í ár, hvort heldur sem litið er til einstaklings eða liða.

Alls hafa safnast um 26 milljónir í átakinu.

Aðspurður segist hann ekki hafa gripið í rakvélina um leið og keppni lauk, heldur fái mottan að lifa. Að minnsta kosti út mánuðinn. „Ég er nú allvanur því að vera með skegg, þannig að þetta var engin gífurleg breyting. Strákarnir voru að minnsta kosti ennþá með sínar í gær, við sjáum til hvernig það fer,“ sagði Hreggviður kíminn að lokum.

Frétt mbl.is: Allt í lagi að líta skringilega út

Vilhjálmur Óli Valsson, sigurvegari Mottumars 2013.
Vilhjálmur Óli Valsson, sigurvegari Mottumars 2013. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert