Ákært vegna samráðs

BYKO í Breiddinni í Kópavogi.
BYKO í Breiddinni í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fimm starfsmenn Byko hafa verið ákærðir í rannsókn sérstaks saksóknara á meintu verðsamráði þriggja byggingavörufyrirtækja. Stjórnendur Byko hafa ákveðið að einn hinna ákærðu, þáverandi framkvæmdastjóri fagsölusviðs, fari í leyfi þar til dómstólar hafa komist að niðurstöðu um sekt hans eða sýknu.

Málið hefur verið til rannsóknar í rúm þrjú ár. Það hófst í mars 2011 þegar Samkeppniseftirlitið og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra framkvæmdu húsleitir hjá Byko, Húsasmiðjunni og Úlfinum - byggingarvörum. 

Í fyrstu voru 19 manns hand­tekn­ir en þeim sleppt að lokn­um yf­ir­heyrsl­um. Rúmri viku síðar voru 15 manns hand­tekn­ir og færðir til frek­ari yf­ir­heyrslu.

Samkvæmt upplýsingum frá sérstökum saksóknara er ekki hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu þar sem ekki er búið að birta öllum ákærurnar, en ljóst er að fleiri verða ákærðir í málinu.

Ákærurnar mikil vonbrigði

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði í samtali við Morgunblaðið 11. mars síðast liðinn að málið væri mjög viðamikið. Daginn eftir sagði Jón Helgi Guðmundsson aðaleigandi Byko við Morgunblaðið að hann hefði lítið orðið var við rannsóknina og vissi ekki í hverju hún fælist.

Saksóknari við embætti sérstaks saksóknara hefur nú lagt fram ákærur í málinu, þar á meðal á hendur fimm einstaklingum í starfsliði Byko, vegna gruns um verðsamráð á árunum 2010 og 2011.

Í tilkynningu frá Guðmundi H. Jónssyni forstjóra Byko segir að eftir lestur ákærunnar sé það skoðun stjórnenda BYKO að í einu tilfelli sé rétt að starfsmaður fari í leyfi. Í ákærum gegn öðrum séu meintar sakir að mati BYKO þess eðlis að ekki sé ástæða til sérstakra aðgerða af hálfu fyrirtækisins.

„Ákæra sérstaks saksóknara veldur stjórnendum Byko miklum vonbrigðum,“ segir Guðmundur. „Fyrirtækið hefur ávallt haft samkeppnislög eins og aðra lagaumgjörð rekstursins í heiðri og er það einlæg von stjórnenda Byko að dómstólar muni komast að þeirri niðurstöðu að ákæra saksóknara eigi ekki við rök að styðjast.“

Sjá einnig:

Húsleit hjá BYKO og Húsasmiðju

Fimmtán handteknir

Öllum sleppt eftir yfirheyrslu

Þrír starfsmenn í leyfi

Þurfa að afhenda samninga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert