„Fallegt að hommar vilji gefa blóð“

Hinsegin dagar hófust í dag í Blóðbankanum til að vekja athygli á að samkynhneigðir karlar fá ekki að gefa blóð hér á landi. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sýndi Blóðbankanum og málinu stuðning. Hann segir regluna á vissan hátt vera barn síns tíma og að það sé „fallegt að hommar vilji gefa blóð eins og aðrir“.

Árni Grétar Jóhannsson var staddur í Blóðbankanum til að fylgjast með en hann segir það vera tímaskekkju að gefa sér að áhættuhegðun í kynlífi tengist samkynhneigðum körlum sérstaklega. 

Víða á Vesturlöndum hafa reglur um blóðgjafir verið rýmkaðar frá því að þær voru settar skömmu eftir að alnæmisfaraldurinn hófst snemma á níunda áratugnum. Í Kanada mega samkynhneigðir karlmenn t.a.m. gefa blóð ef fimm ár hafa liðið frá því að þeir höfðu samfarir við annan mann en í Bretlandi er miðað við eitt ár. 

Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans, segir mikilvægt að umræðan fari fram og að hún fari fram með yfirveguðum hætti en hann sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í dag.

Blóðbankinn hefur um langt skeið miðlað fræðsluefni um þetta málefni af alþjóðlegum vettvangi  og um rúmlega árs skeið hefur tengill á heimasíðu okkar haft fjölbreytt efni úr alþjóðlegri umræðu um þetta mál. http://blodbankinn.is/fraedsla/fraedsluefni-fyrir-blodgjafa/gogn-vardandi-serstakar-reglur-um-blodgjafir.-gogn-um-msm-og-blodgjafir/ 

Það er von okkar að sú umræða verði opnari, fjölbreyttari og upplýstari fyrir vikið. 

Það er erfitt að ræða þessi mál og styðjast við stóryrtar fyrirsagnir eða harðsoðnar niðurstöður í fáum orðum.  Fjölbreytt og gefandi umræða í fjölmörgum löndum um þessi mál getur verið okkur mikilvæg fyrirmynd. 

Ljóst er að fjöldi aðila á að koma að þeirri umræðu; heilbrigðisyfirvöld, stofnanir heilbrigðisyfirvalda s.s. Landlæknir, embætti Sóttvarnalæknis, 
starfsfólk Blóðbankans, annað fagfólk innan heilbrigðisþjónustu, sjúklingasamtök, almenningur, samtök sem láta sig varða málefni samkynhneigðra, 
önnur mannréttindasamtök ofl. Ég hygg að reynsla Kanada sé dýrmæt í þessu tilliti. 

Nýleg umræða í fjölmiðlum um þessi málefni gefur starfsfólki Blóðbankans gott tækifæri til að koma áleiðis til almennings fróðleik um þessi málefni 
þe alþjóðlega umræðu um þá umdeildu reglu heilbrigðisyfirvalda víða um heim 
að ekki skuli leyfa blóðgjöf karls sem hefur haft mök við annan karlmann (men who have had sex with men, MSM) 

http://blodbankinn.is/fraedsla/fraedsluefni-fyrir-blodgjafa/gogn-vardandi-serstakar-reglur-um-blodgjafir.-gogn-um-msm-og-blodgjafir/ 

Mig langar að nefna nokkur atriði af þessu tilefni, sem oft koma upp í hugann þegar þessi mál ber á góma 

(1) Okkur sem vinnum í Blóðbankanum þykir miður þegar gefið er í skyn að þetta sé sérstök regla sem einungis sé í gildi á Íslandi. 
Það er í raun um að ræða opna umræðu um allan heim um þessi málefni. 
Fólk getur gert google leit fyrir "MSM" og "donation" eða "blood donation" og fengið aragrúa tengla og samþykkta um þetta málefni. 
Þetta er alþjóðleg umræða.  Þessi regla heilbrigðisyfirvalda er engan veginn sérstök fyrir Ísland. 

(2) Okkur sem vinnum í Blóðbankanum þykir miður þegar gefið er í skyn að þetta sé sérstök regla sett af Blóðbankanum eða starfsfólki hans. 
Þetta er (líkt og kemur skýrt fram í þessum tengli) um heim allan reglur heilbrigðisyfirvalda í viðkomandi landi, og einungis í valdi heilbrigðisyfirvalda hvers lands að breyta þessu. 

(3) Okkur sem vinnum í Blóðbankanum þykir miður þegar gefið er í skyn að málið snúist um það að leyfa eða leyfa ekki blóðgjöf MSM. 
Í raun hafa einstaka lönd (heilbrigðisyfirvöld þeirra landa) liðkað til um reglur í þessu tilliti, en ALDREI (mér vitanlega) með þeim hætti að leyfa blóðgjöf allra MSM; 
en miklu fremur leyfa blóðgjöf þeirra MSM sem ekki hafa haft mök við annan karlmann í 1, 5 eða 10 ár (mismunandi eftir löndum). 
Þetta hefur verið nefnt "temporary deferral" í stað "permanent referral". 
Þetta er vel skýrt í samþykkt evrópskra heilbrigðisyfirvalda (Committee of Ministers) frá mars 2013 (sjá yfirlýsingu dags. 27. maí 2013 hér að neðan) 
Hefur þetta vakið blendin viðbrögð félagasamtaka og fjöldahreyfinga í viðkomandi löndum. 

(4) Okkur sem vinnum í Blóðbankanum þykir miður þegar gefið er í skyn að málið sé einfalt, "klippt og skorið". 
Þetta mál er flókið viðfangsefni; það varðar marga aðila, einstaklinga, hópa, stofnanir, félagasamtök; 
málið er viðkvæmt, það varðar málefni sem vert er að gefa mikla athygli og sýna mikla virðingu í umræðunni, 
Vert er að gefa sér góðan tíma og gott tóm til þessarar umræðu, forðast fyrirsagnir, fullyrðingar og sleggjudóma.............á báða bóga. 

(5) Heilbrigðisyfirvöld hvers lands geta ákveðið að breyta sínum reglum eða ákveðið að breyta ekki sínum reglum. 
Ísland var aðili að samþykkt evrópskra heilbrigðisyfirvalda um þetta málefni, og verður að gera ráð fyrir því 
að ef þessi mál verða skoðuð nánar þá muni hérlend yfirvöld fylgja því vinnuferli sem þar var samþykkt. 
Í því sambandi verður að telja líklegt að fjöldi aðila (fagaðilar, félagasamtök, sjúklingasamtök ofl.) verði kallaður að málinu. 
Gera verður ráð fyrir gleggra mati á tíðni sjúkdóma sem geta borist með blóði, áætlun um nánari skimunaraðferðir, 
samræmdu áhættumati ofl ofl. 

Ég fagna upplýstri umræðu um þessi málefni og því höfum við kappkostað 
að gera fræðsluefni um þetta málefni aðgengilegt á heimasíðu okkar, www.blodbankinn.is 
_____________________________________________________________________________ 
Samþykkt evrópskra heilbrigðisyfirvalda (Committee of Ministers)  á vettvangi Evrópuráðsins í Strassbourg 
leitast við að skýra afstöðu heilbrigðisyfirvalda þessara landa, og nefna forsendur þessarar reglu 
og þeim skilyrðum sem þurfa að vera til staðar til að breyta þeirri reglu. 

Þessa skýrslu: 
1. Samþykkt ráðherranefndarinnar sem er skipuð heilbrigðisráðherrum allra aðildarríkjanna (eða fulltrúum sem þeir hafa valið fyrir sína hönd). 

2. Technical memorandum inniheldur margvíslegar áhugaverðar og mikilvægar upplýsingar 

og fleira finnið þið á heimasíðu okkar. 
http://blodbankinn.is/fraedsla/fraedsluefni-fyrir-blodgjafa/gogn-vardandi-serstakar-reglur-um-blodgjafir.-gogn-um-msm-og-blodgjafir/ 

Sóttvarnalæknir, Landlæknir og Velferðarráðuneyti eru vel upplýst um þessi mál í alþjóðlegu samhengi. Allar þessar stofnanir heilbrigðisyfirvalda eru virkar í alþjóðlegu samstarfi og þekkja þessi málefni. Þeir hafa fengið afrit þessara skjala. 

Ekki hefur af hálfu ráðuneytisins verið boðuð breyting á þessari reglu, svo mér sé kunnugt. 
Ráðuneytið hefur ekki leitað álits Blóðbankans á þessum málefnum. 
Sérstök ráðgjafanefnd heilbrigðisráðherra um málefni blóðbankaþjónustu hefur ekki fjallað um þessi málefni, svo mér sé kunnugt, 
né heldur hefur heilbrigðisráðherra vísað þessu málefni til þessarar ráðgjafanefndar ráðherrans, svo mér sé kunnugt um. 


Með vinsemd og virðingu 
Sveinn Guðmundsson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert