Hinsegin dagar hefjast í Blóðbankanum

Stjórn Hinsegin daga í Reykjavík: Eva María Þ Lange, formaður, …
Stjórn Hinsegin daga í Reykjavík: Eva María Þ Lange, formaður, Baldvin Kári, varaformaður, Kristín Sævarsdóttir, ritari, Gunnlaugur Bragi, fjármálastjóri og Jón Kjartan Ágústsson, meðstjórnandi.

Hinsegin dagar hefjast í Reykjavík í dag en hátíðin stendur til sunnudagsins 10. ágúst. Dagskrá Hinsegin daga er fjölbreytt sem aldrei fyrr, en hún hefst með hópferð í Blóðbankann við Snorrabraut á hádegi í dag. Markmið heimsóknarinnar er að minna á að karlmönnum sem stundað hafa kynmök með einstaklingi af sama kyni er óheimilt að gefa blóð, segir í fréttatilkynningu.

Í tilkynningu kemur fram að borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, og formaður Hinsegin daga, Eva María Þórarinsdóttir Lange, munu leiða blóðgjöfina. Síðdegis mun blaklið Íþróttafélagsins Styrmis mæta liði borgarfulltrúa í Nauthólsvík. Dagskrá kvöldsins lýkur svo með heimildarmyndinni Intersexion í Bíó Paradís í samstarfi við Intersex Ísland en Kitty Anderson mun sitja fyrir svörum að sýningu lokinni.

Af þeim viðburðum sem framundan eru í vikunni má nefna tónleikana Dívur og Dýfur í Sundhöll Reykjavíkur á morgun, tónleika Hinsegin kórsins, hinsegin göngu um Grasagarðinn, ýmsa fyrirlestra og pallborðsumræður og siglinguna Stolt siglir fleyið mitt frá gömlu höfninni í Reykjavík. Að ógleymdri opnunarhátíð í Hörpu, fjölskylduhátíð í Viðey og sjálfri gleðigöngunni og útitónleikum á Arnarhóli á laugardag. Á Arnarhóli munu ýmsir þjóðþekktir listamenn stíga á svið, en þar má nefna Pál Óskar, Siggu Beinteins, Felix Bergsson, Lay Low og fleiri.

Hinsegin dagar hafa verið árviss viðburður í Reykjavík frá árinu 1999. Sögu hátíðarinnar má þó rekja aftur til áranna 1993 og 1994 þegar frelsisgöngur homma og lesbía gengu um miðborgina og kröfðust atvinnuöryggis og almennrar viðurkenningar í samfélaginu. Gríðarlega margt hefur áunnist í baráttu hinsegin fólks hér á landi á undanförnum árum - en betur má ef duga skal. Í könnun sem Samtökin ’78 létu gera síðastliðinn vetur kom í ljós að rúm 80% svarenda höfðu orðið fyrir aðkasti vegna kynhneigðar sinnar eða kynvitundar, fengið óviðeigandi spurningar eða athugasemdir, heyrt fordómafulla umræðu eða lent í einelti – og meirihlutinn á síðustu þremur árum.

„Við höldum Hinsegin daga til að gleðjast og fagna þeim sigrum sem hafa áunnist en einnig til að minna okkur á það að á meðan einstaklingar mæta enn aðkasti og fordómum vegna kynhneigðar og kynvitundar, hvar sem er í heiminum, er baráttunni hvergi nærri lokið,“ segir í fréttatilkynningunni.

Nánari upplýsingar hér og hér.

Frá Gleðigöngunni í fyrra.
Frá Gleðigöngunni í fyrra.
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri í Gleðigöngunni.
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri í Gleðigöngunni.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert