Elliði kemur Hönnu Birnu til varnar

Elliði Vignisson
Elliði Vignisson Oli Haukur

Ég lýsi yfir fullum stuðningi við ákvarðanir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í þessu máli og við hana persónulega. Ekkert hefur hingað til komið fram sem bendir til þess að hún hafi brotið lög eða brugðist embættisskyldum sínum. Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, á heimasíðu sinni í dag.

„Engin grunur er um að Hanna Birna hafi sjálf lekið gögnum og það er fáránlegt að ætlast til þess að ráðherra segi af sér ef grunur leikur á um að einhver starfsmaður hafi gerst brotlegur,“ segir hann og bætir við að allt tal um að ráðherra hafi beitt lögreglustjóra þrýstingi hafi verið borið til baka af lögreglustjóranum sjálfum.

„Lögregla hefur lokið rannsókn og sent það til ríkissaksóknara. Velji hún að sitja áfram í stóli ráðherra þrátt fyrir aðförina þá treysti ég henni til þess. Eins óheppilegt og þetta mál allt og umbúðir þess eru þá hef ég aldrei séð neitt fram komið sem fær mig til að efast um heilindi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur,“ segir hann.

Telur upplýsingarnar geta átt erindi við almenning

Þá segir hann að upplýsingarnar sem lekið var úr ráðuneytinu geti átt fullt erindi við almenning. „Sjálfum þykir mér fullkomlega eðlilegt að þegar ég tek afstöðu til þess hvort ég lýsi yfir stuðningi við hælisleitanda á opinberan máta eins og þar var hvatt til hafi ég upplýsingar um það hvort viðkomandi sé grunaður um aðild af viðbjóðslegum glæpum eins og mansali.“

Kjörnir fulltrúar víkja fyrir embættismönnum

Hann segir framgöngu embættismanna á Íslandi vekja furðu sína og segir það hafið yfir allan vafa að þeir stjórni landinu. „Kjörnir fulltrúar eru í besta falli til hliðar við ákvarðanir líkt og gert var víðfrægt í þáttunum „Yes minister“.  Eftir sem áður vekur það furðu mína að fylgjast með framgöngu sumra þeirra í þessu máli. Ef til vill eru þeir að styrkja valdastöðu sína gagnvart stjórnmálamönnum. Ef til vill eru þeir að þóknast einhverjum meintum almannarómi. Ef til vill eru þeim bara svona mislagðar hendur í þessu. Ég veit það ekki.“

Gert til að friðþægja ofsóknarfólkið

Elliði gagnrýnir þá fjölmiðla sem hann telur hafa gengið harðast fram í málinu í færslunni.  „Þar hefur DV farið fremst og ekkert óeðlilegt við það. DV er miðill sem heggur fast, en misfast þó. Ritstjórinn hefur haldið því fram að miðilinn „taki fólk niður“ með því að „pönkast á því út í það óendanlega“,“ segir hann.  

„Ég hef líka staðið mig að því að velta vöngum yfir því hvort ríkissaksóknari sé enn við sama heygarðshornið og hún var í þátttöku sinni í aðför að Geir H. Haarde, aðför sem endaði með því að Geir var fundinn sekur um einn ákærulið af fjórum (að halda ekki nógu marga ríkisstjórnarfundi) en ekki gerð refsing,“ segir hann. „Ef til vill var sú niðurstaða til þess að friðþægja ofsóknarfólkið. Þá er afstaða og þrákelkni umboðsmanns Alþingis athyglisverð og vera kann að umboðsmaðurinn hafi hlaupið útundan sér í þessu máli eftir að DV hafði reimað á hann rauðleita skóna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert