Úr fyrirmyndarnemanda í „dónalegt“ ungmenni

Silja Björk Björnsdóttir.
Silja Björk Björnsdóttir. Eggert Jóhannesson

„Ég hugsaði með mér að kannski væri það sem ég gekk í gegnum ekki til einskis. Kannski væri rík ástæða fyrir því að tilraun mín til að taka eigið líf misheppnaðist,“ segir Silja Björk Björnsdóttir sem síðasta eina og hálfa árið hefur haldið fyrirlestra í mennta- og grunnskólum og sagt ungmennum sögu sína og er það að hennar eigin frumkvæði.

Silja Björk er aðeins 22 árs gömul og veiktist af alvarlegu þunglyndi þegar hún var í menntaskóla en um tvítugt gerði hún tilraun til sjálfsvígs. Hún segir í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina að henni sé mikið í mun að ungmenni þurfi ekki að rekast á veggi eins og hún gerði í menntaskóla þar sem henni var tekið sem „dónalegu“ ungmenni sem þyrfti einfaldlega að taka sig saman í andlitinu og hegða sér betur - í stað þess að tekið væri mark á umkvörtunum hennar um vanlíðan. Þekking á þunglyndi og einkennum þess hafi einfaldlega ekki verið til staðar.

„Ég hafði verið fyrirmyndarnemandi með toppeinkunnir og hefði aldrei dottið í hug að skrópa í tíma. Auk þess var ég allt í öllu, var í ræðuliðinu, var formaður leikfélagsins, í árshátíðarnefndinni, bara nefndu það. Það var eins og þessari manneskju væri skipt út fyrir einhverja aðra sem gat ekki farið fram úr á morgnana. Ég reyndi áfram að sinna þessum verkefnum en var ekki að valda hlutverkinu,“ segir Silja meðal annars í viðtalinu.

Þegar Silja var komin í þriðja bekk í menntaskóla var hún kölluð á fund aðstoðarskólameistara. „Ég var farin að mæta illa, einkunnir hríðféllu og þar að auki braust vanlíðan mín þannig út að ég var orðin hortug og dónaleg við kennarana mína sem skildu ekkert í mér. Ég hugsaði með mér að ég skyldi segja frá því hvað mér liði illa og að mér hefði lengi liðið illa og að ég vissi hreinlega ekki hvað væri í gangi. Viðkvæðið var að það væri ekkert að mér svo að það sæist, ég gæti staðið upp á morgnana virtist vera. Líkamlega gat ég það þótt það væri mikið átak og ylli kvíða. Aðstoðarskólameistarinn spurði mig líka hvort ég ætlaði að kasta menntun minni á glæ. Ég er viss um að viðmótið sé annað í dag og veit það raunar, ég hef fengið bréf síðar frá kennurum sem hafa sagt mér að þeir hefðu óskað þess að þeir hefðu áttað sig á hvernig ástandið var. En þetta viðmót er líka ástæðan fyrir því að ég vil hafa kennara og skólayfirvöld viðstödd þegar ég held fyrirlestra í skólum. Það dugar ekki að bara nemendurnir viti þetta.“

Silja hefur alla tíð gefið fyrirlestravinnu sína en eftir að hún flutti suður segist hún þó stundum fá bensínstyrk til að koma sér á milli staða þar sem vegalengdirnar séu nú meiri en fyrir norðan.

„En ef skólarnir hafa ekki úr neinu fé að moða kem ég engu að síður! Ég veit hvað það er mikil pressa á unglingum í dag, við eigum að vera að setja inn flotta statusa og myndir á Facebook, vera að fara í Asíureisur eftir menntaskólaútskrift og á samskiptamiðlunum ganga svo myndir af chia-grautum og myndum úr ræktinni. Ég hef reynt bara að setja myndir inn af sálfræðistofunni í staðinn,“ segir Silja Björk og hlær. „Það er alveg jafn mikið afrek. Heilbrigði snýst ekki bara um það ytra.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert