Aksturinn litinn alvarlegum augum

Skjáskot úr myndbandi The Sunday Times sem virðist sýna utanvegaakstur …
Skjáskot úr myndbandi The Sunday Times sem virðist sýna utanvegaakstur í friðlandinu við Kleifarvatn. Skjáskot

Lögfræðingar Umhverfisstofnunar hafa farið yfir myndband sem sýnir erlendan bílablaðamann við utanvegaakstur á Land Rover í friðlandinu við Kleifarvatn. Mat þeirra er að um utanvegaakstur sé að ræða og er málið litið alvarlegum augum. Undirbúa þeir beiðni til lögreglu um að rannsaka atvikið.

„Okkar mat er að þarna virðist svo að um utanvegaakstur sé að ræða sem er brot á náttúruverndarlögum. Við lítum málið mjög alvarlegum augum. Það sem gerist núna er að málið fer í hefðbundið feril innan stofnunarinnar sem er sá að lögfræðingarnir útbúa beiðni til lögreglunnar um að rannsaka málið. Svo er það hennar að taka ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra í málinu eða ekki,“ segir Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar.

Í myndbandi sem birtist á vefsíðu breska blaðsins The Sunday Times sést blaðamaður þess við reynsluakstur á Land Rover Discovery-jeppa við og í nágrenni Kleifarvatns. Virðist hann aka utan vega og endar hann á að festa sig kyrfilega á ströndinni við vatnið. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur fjöldi erlendra blaðamanna komið hingað til lands og er væntanlegur til að reynsluaka bifreiðinni.

Svæðið er friðland sem tilheyrir Reykjanesfólksvagni sem er ekki til að bæta úr skák, að sögn Guðfinns. Brot á lögunum varðar við allt að tveggja ára fangelsi. Valdi brotin alvarlegum spjöllum á náttúru landsins er lágmarkssektin 350.000 kr. (tekur mánaðarlegum breytingum m.t.t. vísitölu neysluverðs) og fangelsisrefsing getur numið allt að fjórum árum.

Uppfært kl. 13:58: Myndbandið af utanvegaakstrinum hefur verið fjarlægt af Youtube af notanda.

Fyrri frétt mbl.is: Markaðssetning Íslands ömurleg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert