313 greinst með HIV hér á landi

Lífslíkur HIV smitaðra einstaklinga hafa aukist til muna með þróun …
Lífslíkur HIV smitaðra einstaklinga hafa aukist til muna með þróun nýrra lyfja og betri meðferð. AFP

Þrjúhundruð og þrettán manns greindust með HIV hér á landi á árunum 1983-2012. Þar af voru 222 karlmenn og 91 kona. 65% þeirra sem greindust smituðust erlendis, en á tímabilinu lækkaði dánartíðni af völdum sjúkdómsins um að minnsta kosti 70%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókn sem unnin var hér á landi og birt var í læknatímaritinu Journal of AIDS & Clinical Research á dögunum.

„Það eru komin hátt í þrjú ár síðan við byrjuðum á þessu verkefni svo þetta hefur tekið talsverðan tíma. En það sem er mjög sérstakt við þessa rannsókn er að hún spannar óvenjulangt tímabil og við erum að skoða alla sem greinst hafa hérlendis,“ segir Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir og einn höfunda rannsóknarinnar.

Ásamt honum voru það Hlynur Indriðason, læknanemi, Sigurður Guðmundsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum og fyrrum landlæknir, Bergþóra Karlsdóttir, hjúkrunarfræðingur á göngudeild smitsjúkdóma, Arthur Löve, prófessor í veirufræði og Haraldur Briem, smitsjúkdómalæknir og sóttvarnalæknir, sem unnu rannsóknina.

„Rannsóknir af þessum toga eru mikilvægar bæði til að geta veitt sjúklingum góðar upplýsingar og svarað þeirra spurningum og einnig til að bera árangur okkur saman við spítala erlendis,“ segir Magnús, aðspurður um ástæðu þess að farið var út í rannsóknina.

Mikið dregið úr smithættu í þjóðfélaginu

Að sögn Magnúsar hefur lítið verið skrifað í fagtímaritum um HIV hér á landi í seinni tíð, en ein grein var birt í Læknablaðinu í upphafi faraldursins þegar ennþá var lítið um úrræði fyrir sjúklinga. „Það er gríðarlega margt sem hefur breyst í meðferðinni; bæði lyfin og upplýsingarnar sem við getum aflað og gera okkur kleift að taka markvissari ákvarðanir. Við vildum skoða þetta hér hjá okkur og reyna þá að lýsa þeim breytingum sem átt hafa sér stað.“

Þá segir hann sérfræðinga í smitsjúkdómum mun bjartsýnni á horfur HIV smitaðra nú en áður, þar sem ljóst sé að með því að meðhöndla fólk fyrr sé verið að fyrirbyggja heilsutap þess og jafnframt draga úr smithættu í þjóðfélaginu í heild.

Úr 24 tilfellum árið 2010 niður í 10 tilfelli í fyrra

Magnús segir þá sem komu að rannsókninni afar ánægða með niðurstöðurnar, sem sýna góðan árangur af meðferð. Hann segir þó ákveðin vandamál hafa komið upp, eins og hópsýking meðal sprautufíkla sem ollu miklum áhyggjum á árunum 2010 til 2012. „Þetta virðist hafa gengið yfir, en maður getur aldrei verið fullkomlega viss því þetta er hópur sem getur verið erfitt er að ná til. Á síðustu tveimur árum höfum við þó ekki verið að greina marga fíkla með HIV svo það bendir allt til þess að þetta hafi náð hámarki árið 2010-2012 þegar það varð sprenging í nýgreiningum.“

Magnús segir faraldurinn hafa verið sérstakan því flestir sprautufíklarnir hafi notað lyfseðilsskylt lyf, metýlfenídat, en samkvæmt erlendum rannsóknum er það afar óvenjulegt.

Árið 2010 greindust 24 tilfelli af sjúkdómnum, en þau eru venjulega á bilinu 8 til 12. Á síðasta ári greindust 10 tilfelli, þar af voru sex áður greindir erlendis með HIV smit. Voru því aðeins fjórir með nýja greiningu og þar af einn aðili sem hafði verið að sprauta sig. Er því ljóst að dregið hefur aftur úr fjölda nýgreininga.

Færri nýjar greiningar en á norðurlöndunum

Eins og fram kom voru 71% þeirra sem greindust á tímabilinu karlmenn og 29% konur. Magnús segir þetta ekki koma á óvart, enda sé þetta í samræmi við kynjahlutföllin hjá nágrannalöndunum. „Í upphafi var HIV og alnæmi sjúkdómur sem var að mestu leyti grindur meðal karla en á síðustu 15 árum hafa kynjahlutföllin smám saman verið að jafnast.“

Þá segir hann stóran hluta fólks sem greinist með HIV hér á landi erlenda ríkisborgara, eða erlent fólk sem hefur flutt hingað til lands. Þetta þekkist einnig í hinum norðurlöndunum. „Sums staðar er talsvert meira en helmingur nýgreindra með slíka sögu. Í augnablikinu má segja að umfang sjúkdómsins eða nýgengi, sem er fjöldi nýrra greininga á hverja 100 þúsund íbúa á ári, sé áþekkt því sem er á hinum norðurlöndunum, og jafnvel heldur lægra.“

Lífslíkur sjúklinga hafa aukist gríðarlega

Magnús segir lífslíkur þeirra sem greinast hafa aukist gríðarlega á síðustu árum. „Þeir sem smitast eru gjarnan með góða og jafnvel fulla starfsorku fá þeir viðeigandi greiningu og lyfjameðferð. Þeir eldast eins og aðrir í þjóðfélaginu, fá sjúkdóma sem fylgja öldrun en eru síður þessar tækifærissýkingar sem við tengjum svo mikið við alnæmi.“ Þá varð að minnsta kosti 70% lækkun á dánartíðni á tímabilinu.

„Við erum bjartsýn á að í framtíðinni muni takast enn betur að draga úr þessu vandamáli,“ segir Magnús og bætir við að með fræðslu til almennings og þeirra hópa sem eru frekar útsettir fyrir sjúkdómnum eigi að takast að draga enn frekar úr nýgengi. Ávallt sé mikilvægt sé að brýna fyrir ungu fólki að nota verjur og sýna ábyrgð í kynlífi til að koma í veg fyrir smit.

Bíða enn eftir lækningu við HIV

Loks segir hann misjafnt hvaða lyf eru notuð til að halda sjúkdómnum í skefjum, en hér á landi séu  bandarískar og evrópskar leiðbeiningar hafðar til hliðsjónar. „Víða í fátækari löndum er aðgengi að lyfjum mjög takmarkað, og sums staðar kannski aðeins um eitt til tvö lyf að ræða, en við höfum verið tiltölulega fljót að taka upp nýjungar á þessu sviði,“ segir Magnús.

„En menn eru ennþá að bíða eftir lækningu og reyna að þróa bóluefni og biðin eftir því er orðin löng,“ segir hann en bætir við að í vetur hafi birst áhugaverð grein þar sem notast var við ákveðna mótefnatækni til að hindra veiruna í að fjölga sér og hefur efnið jafnframt virkað vel í prófunum í  dýrum. „Hugsanlegt er að þessi uppfinning muni skila sér í bættri meðferð sjúklinga í fyllingu tímans. Því er fyllsta ástæða til bjartsýni.“

Á töflununum má sjá A) Nýgengni HIV hér á landi, …
Á töflununum má sjá A) Nýgengni HIV hér á landi, B) Nýgengi alnæmis hér á landi og C) Dánartíðni vegna alnæmis hér á landi á tímabilinu 1983-2012. Skjáskot úr rannsókninni
Á síðasta ári greindust 10 með HIV hér á landi, …
Á síðasta ári greindust 10 með HIV hér á landi, og þar af voru 4 ný smit. AFP
Árin 2010 til 2012 varð mikil aukning á tilfellum sem …
Árin 2010 til 2012 varð mikil aukning á tilfellum sem greindust hjá sprautufíklum. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert