Nóg til í verkfallssjóðum BHM

BHM-félagar vonast til að ríkið leggi fram betra tilboð á …
BHM-félagar vonast til að ríkið leggi fram betra tilboð á samningafundi hjá ríkissáttasemjara í dag. Vika er síðan síðast var fundað. mbl.is/Ómar Óskarsson

Félagsmenn BMH þurfa ekki að hafa áhyggjur af tekjumissi á meðan á verkfalli stendur, nóg er til í sameiginlegum verkfallssjóði sautján aðildarfélaga. Hver og einn heldur sínum meðallaunum og verður greitt úr sjóðunum um mánaðarmótin.

Í gær hófst verkfall 560 félagsmanna, þar af 533 heilbrigðisstarfsmanna. Náist ekki sátt í kjaraviðræðunum í dag hefst verkfall hjá 2.333 félagsmönnum til viðbótar á morgun, fimmtudag. Samningafundur hófst í húsi Ríkissáttasemjara kl. 13.30 en ekki hefur verið fundað vegna kjaradeilunnar í heila viku.

Ása Sigríður Þórisdóttir, upplýsingafulltrúi BHM, segir félagið tilbúið að kosta ýmsu svo menntun verði metin til launa. Aðspurð segist hún ekki geta gefið upplýsingar um hversu lengi hægt er að greiða félagsmönnum laun úr verkfallssjóðnum.

Munuð þið halda áfram að bæta tekjutapið að fullu ef sjóðirnir tæmast?

 „Varðandi sjóðina þá munum við greiða þeim sem í verkfalli eru það tekjutap sem þeir verða fyrir. Eins og gefur að skilja eru engir sjóðir ótæmandi en við eru fullbúin til þess að standa í aðgerðum í langan tíma ef þörf krefur,“ segir Ása Sigríður í samtali við mbl.is.

„Stóra málið er ekki  hversu lengi við getum verið í verkfalli heldu hversu lengi samfélagið geti búið við verkföll af þessu tagi. Þess vegar er það skylda okkar og viðsemjanda í þessu tilfelli ríkisins að gera allt sem í okkar valdi stendur til að finna ásættanlega lausn fyrir báða aðila svo verkföllum geti lokið sem fyrst“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert