Fékk tvöfaldan lífstíðardóm

Bandaríkjamaðurinn Ross Ulbricht var í dag dæmdur í tvöfalt ævilangt fangelsi fyrir að standa að baki sölusíðunni Silk Road þar sem eiturlyf gengu kaupum og sölum. Fréttastofa AFP segir síðuna hafa selt eiturlyf fyrir yfir 200 milljónir Bandaríkjadala (27 milljarða króna) til viðskiptavina um allan heim en síðan var hýst á íslenskum netþjónum.

Í febrúar var Ulbricht m.a. fundinn sekur um peningaþvætti, og sölu eiturlyfja og kláms. Hann notaðist við dulnefnið „Dread Pirate Roberts“. Ulbricht, sem er 31 árs gamall, sýndi engar tilfinningar þegar dómarinn, Katerine Forrest, kvað upp dóm sinn.

Tvöfalda lífstíðardóminn hlaut Ulbricht fyrir skipulagða glæpastarfsemi og dreifingu fíkniefna en hann hlaut einnig fimm 15 og 20 ára dóma fyrir tölvuglæpi, skjalafals og peningaþvætti. 

Forrest sagði Ulbricht ekki eiga möguleika á skilorði en ríkisstjórn Bandaríkjanna segir hann hafa gert kaup á ýmsum fíkniefnum eins auðveld og að versla á eBay eða Amazon.

„Þú ættir að eyða ævi þinni í fangelsi,“ sagði Forrest. „Það sem þú gerðir á Silk Road var hræðilega skemmandi fyrir uppbyggingu samfélags okkar,“ hélt hún áfram og sagði að háskólamenntun hans þýddi að hann hefði verri skýringar fyrir gjörðum sínum en meðal eiturlyfjasali. Dómurinn hefði ekki getað verið harðari samkvæmt lögum Bandaríkjanna og dæmdi Forrest Ulbricht jafnvel í enn lengra fangelsi en saksóknari hafði farið fram á.

Sárbændi um vonarglætu

Í bréfi til Forrest í síðustu viku sárbændi Ulbricht um að fá að eyða ævilokum sínum sem frjáls maður. „Gerðu það, skyldu eftir smávægilegt ljós við enda ganganna,“ skrifaði hann.

Saksóknarar sögðu glæpahring Ulbricht bera ábyrgð á að  minnsta kosti sex dauðsföllum tengdum eiturlyfjum og að hann hafi fengið 13 milljónir dala í sölulaun. Þá greiddi Ulbricht yfir hálfa milljón dala fyrir morð á fimm einstaklingum til að verja glæpahringinn. Hann taldi að morðin hefðu verið framin en engin lík hafa þó fundist.

Ulbricht stofnaði síðuna í janúar 2011 og rak hana fram í október 2013  þegar bandaríska alríkislögreglan  FBI lokaði henni.  Talið er að eiturlyfjasalar í yfir 10 löngum í Norður Ameríku og Evrópu hafi nýtt sér síðuna. Silk Road var lokað með aðstoð íslenskra lögregluyfirvalda og sá lög­regl­an rann­sak­end­um fyr­ir gögn­um um um­ferð á vefn­um auk gagna­grunna um aug­lýs­ing­ar frá söluaðilum, skrár yfir viðskipti og einka­skila­boð milli not­enda síðunn­ar. 

Fréttir mbl.is:

Stofnandi Silk Road dæmdur

Gætu þurft að bera vitni

Sölusíða með vímuefni hýst á Íslandi

Foreldrar Ulbricht ásamt lögmanni hans eftir úrskurðinn í dag.
Foreldrar Ulbricht ásamt lögmanni hans eftir úrskurðinn í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina