Enginn fer norður nema forstjórinn

Fiskistofa hefur frá byrjun árs 2006 haft aðsetur að Dalshrauni …
Fiskistofa hefur frá byrjun árs 2006 haft aðsetur að Dalshrauni í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Líkt og mbl.is hefur greint frá munu höfuðstöðvar Fiskistofu flytjast til Akureyrar um áramótin, en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sendi út tilkynningu þess efnis í gær. Björn Jónsson lögfræðingur hjá Fiskistofu segir í samtali við mbl.is að starfsmenn stofunnar hafi búist við til­kynn­ingunni um nokkurt skeið.

„Frá því að lagabreytingin tók gildi þá vorum við meðvituð um í hvað stefndi, að ráðherra fengi heimild til að flytja höfuðstöðvarnar til Akureyrar. Hins vegar liggur fyrir loforð hans um að allir þeir sem eru með starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu fái að halda störfum sínum hér, og það virðist ganga eftir.“

Allt verði þyngra í vöfum

Björn segir að þeir starfsmenn sem eftir verða finni ekki fyrir skertu atvinnuöryggi. „Það eru engin merki um það, enda búumst við fastlega við því að loforð ráðherra haldi.“

Þeir starfsmenn geti þó búist við óþægindum í kjölfar flutninganna. „Allt verður náttúrlega þyngra í vöfum þegar forstjórinn og yfirlögfræðingurinn eru komnir norður í land á meðan meginstarfsemin verður eftir í Hafnarfirði. Það er ekkert launungarmál að yfirstjórnendur hjá stofnuninni eru í mjög nánum samskiptum við ráðuneytið og fara oft þangað til fundarhalda. Sá hluti starfseminnar verður auðvitað mun torveldari hér eftir.“

Tuttugu manns sagt upp störfum

Töluverður fjöldi starfsmanna hefur sagt upp störfum síðan áætlanir ráðherra urðu ljósar í lok júní á síðasta ári. „Upplýst var á fundi í gær að í kringum 20 manns hafa sagt upp störfum,“ segir Björn og bætir við að forstjórinn hafi haldið að sér höndum við ráðningar starfsmanna í stað þeirra sem sögðu upp.

Aðspurður um hvort margir hyggist flytja norður um áramótin segist Björn ekki vita til þess. „Ég veit ekki um neinn, nema sjálfan fiskistofustjóra.“ Þrátt fyrir það séu nokkrar stöður lausar og býst Björn við að nýtt starfsfólk muni fylla stöðurnar á Akureyri.

„Auðvitað væri dásamlegt að vera á Akureyri en fólk er hér með maka og börn í skóla. Það er ekki hlaupið að því að rífa upp heila fjölskyldu og flytja maka í mögulegt atvinnuleysi norður á Akureyri. Þessi ákvörðun var náttúrlega frá upphafi mjög slæm.“

Ráðhústorgið á Akureyri. Fáir ef nokkrir starfsmenn Fiskistofu vilja flytja …
Ráðhústorgið á Akureyri. Fáir ef nokkrir starfsmenn Fiskistofu vilja flytja norður, utan forstjórans.
mbl.is