Meiri gæsla í München en Ísrael

„Maður fann fyrir því í borginni og sérstaklega hérna á flugvellinum í München er mun meiri gæsla en við upplifðum þegar við vorum í Þýskalandi fyrir níu dögum,“ segir Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, sem er staddur á flugvellinum í München.

„Við vorum að koma frá Ísrael þar sem er einhver mesta öryggisgæsla á flugvelli í heiminum. Hún er mun meiri hér núna. Það gengur gríðarlega hægt að koma fólki í gegnum öryggisleit,“ segir Stefán Einar. Hann segist ekki vita hvort það tengist straumi flóttafólks til borgarinnar. „Það er mjög nákvæm vopnaleit og farið gegnum pappíra. Við vorum að velta fyrir okkur hvað valdi þessu og drögum ekki aðra ályktun en að það sé vegna stöðunnar í borginni,“ segir Stefán Einar.

Hann og kona hans voru í borginni í dag. Hann segir að þau hafi ekki orðið vör við flóttafólk við Marienplatz, eitt aðaltorgið í miðborg München. „Ekki inni í miðborginni. Ég veit ekki hvort maður eigi að draga ályktanir en það var töluvert af lögreglu á ferðinni með sírenur og í miðborginni var ekki einn lögreglumaður sýnilegur. Við furðuðum okkur á því en þeir eru eflaust að sinna verkefnum þar sem flóttamennina drífur að,“ segir Stefán Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert