Gunnar slapp við heilaskannann

Læknir hugar að Gunnari Nelson í bardaganum í Las Vegas.
Læknir hugar að Gunnari Nelson í bardaganum í Las Vegas. AFP

Jón Viðar Arnþórsson, forseti Mjölnis, segir að Gunnar Nelson hafi verið óbrotinn og ekki með hausverk þrátt fyrir að hafa verið laminn 142 sinnum í andlitið af Brasilíumanninum Demian Maia í bardaga þeirra í Las Vegas aðfaranótt sunnudags.

Hann segir að höggin sem Gunnar fékk hafi ekki verið nógu þung til þess.

„Þótt hann hafi verið svolítið marinn í framan og fengið blóðnasir var ekkert af höggunum það þungt að hann meiddi sig eitthvað. Hann var ekki með neinn hausverk á eftir eða neitt svoleiðis,“ segir Jón Viðar. „Það er örugglega verra að skalla bolta af þungum krafti í fótboltaleik heldur en þetta.“

Allt morandi í læknum og heilaskönnum

Að sögn Jóns Viðars eru „allt morandi í læknum og heilaskönnum“ í kringum bardaga sem þessa. Læknisskoðun fer fram rétt fyrir bardagann og svo aftur strax að honum loknum.  Ef keppendur fá þungt högg, eins og Gunnar fékk í bardaga sínum við Rick Story í Svíþjóð í fyrra, eru þeir sendir beint í heilaskanna. „En af því að þetta voru svakalega létt högg og enginn höfuðverkur á laugardaginn þá sögðu þeir að það væri óþarfi að fara með hann í heilaskanna.“

Þar fyrir utan eru keppendur í blönduðum bardagaíþróttum, MMA, skyldugir til að fara í heilaskanna einu sinni á ári.

Demian Maia og Gunnar Nelson.
Demian Maia og Gunnar Nelson. AFP

Ekkert alvarlegt slys orðið 

Samkvæmt reglum UFC-keppninnar má Gunnar ekki keppa næsta einn til einn og hálfan mánuðinn. „Ef þeir tapa og fá einhver högg í höfuðið þá mega þeir ekkert æfa í ákveðinn tíma. Það er séð fyrir öllu svoleiðis. Það er svo mikið í húfi að þeir taka ekki áhættu með neitt en staðreyndirnar segja að frá því UFC var stofnað árið 1993 hefur ekki orðið neitt alvarlegt slys,“ greinir Jón Viðar frá.

Meiri slysatíðni hjá klappstýrum

 „Fólk sem kannski þekkir ekki íþróttina reynir oft að gagnrýna hana. Auðvitað eru höfuðhögg ekki góð fyrir þig en það eru svo margar aðrar íþróttir sem eru svo miklu, miklu hættulegri. Það er meiri slysatíðni hjá klappstýrum, svo ég tali nú ekki um hestaíþróttir, ruðning og fleiri íþróttir.“

Spurður út í umræðu um mögulega heilabilun eftir feril keppenda í MMA segir hann: „Eins og staðan er í dag hefur ekki komið upp neitt þannig tilvik. En þú þarft ekki að vita mikið um læknisfræði til að geta sagt að höfuðhögg eru aldrei góð fyrir þig. Þú getur samt fengið hrikalega þung högg í hvaða íþrótt sem er.“

Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis.
Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis. Sigurgeir Sigurðsson

Þarf að æfa með betri glímumönnum

Gunnar Nelson og aðstoðarmenn munu draga ákveðinn lærdóm af bardaganum í Vegas. Jón Viðar segir að Gunnar hafi byrjað of rólega og hafi orðið þreyttur alltof fljótt.  „Við þurfum að reyna að komast að því af hverju það var. Hann er í mjög góðu formi en var dauðþreyttur eftir tvær mínútur, sem er mjög ólíkt honum,“ segir hann og bætir við að einnig þurfi að fá betri glímumenn til Íslands til að æfa með Gunnari.

„Gunnar hefur alveg glímt við betri menn [en Damien Maia] og honum hefur ekki verið haldið svona niðri síðan hann var að byrja árið 2004 eða 2005. Þess vegna var mjög skrítið að sjá þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert