Vilja kjósa um prest í Mosfellsbæ

Reynt verður að knýja fram almenna prestskostningu í Mosfellsbæ.
Reynt verður að knýja fram almenna prestskostningu í Mosfellsbæ. Sigurður Bogi Sævarsson

Hafin er undirskriftasöfnun um almenna prestskosningu um embætti prests í Mosfellsprestakalli. Það er stuðningshópur sr. Arndísar G. Bernharðsdóttur Linn sem stendur fyrir söfnuninni en hún hefur starfað við sóknina í fjölda ára.

Þriðjungur atkvæðabærra sóknarbarna þarf að skrifa undir viljayfirlýsingu svo kosning fari fram, eða tvö þúsund manns í þessu tilviki. Staðan hefur ekki verið auglýst á vef þjóðkirkjunnar. 

Greint er frá þessu í nýjasta tölublaði Mosfellings.

Líkt og komið hefur fram á mbl.is lét sr. Skírnir Garðarsson, prestur í Mosfellsprestakalli, sjálfviljugur af störfum í desember. Hann hafði verið sendur í leyfi ásamt sóknarprestinum sr. Ragnheiði Jónsdóttur vegna samskiptaörðugleika þeirra. Biskup Íslands leysti úr málinu með því að búa til nýtt embætti héraðsprests fyrir Skírni en staðan nýja var ekki auglýst. 

Frétt mbl.is: Bjó til nýtt starf og auglýsti ekki

Ragnheiður sneri aftur til starfa 1. janúar en tveir afleysingarprestar þjónuðu síðustu vikur ársins 2015. „Við vonumst til þess að Mosfellingar taki þessari áskorun vel og vilji hafa um það að segja hver muni gegna stöðu prests í sókninni,“ er haft eftir Helgu Kristínu Magnúsdóttur í Mosfellingi en hún er talsmaður stuðningshóps Arndísar. 

„Við erum ekki í neinum vafa um það hver er best til þess fallin að verða prestur í Lágafellssókn. Það er hún Arndís Linn sem starfað hefur við sóknina í fjölda ára. Hún er rótgróin Mosfellingur og vel liðin meðal sóknarbarna. Okkur finnst vega þyngra að viðkomandi sé í sterkum tengslum við sína heimabyggð heldur en starfsreynsla í árum talið innan þjóðkirkjunnar,“ er einnig haft eftir Helgu Kristínu. 

Hefur oft sótt um en ekki fengið

Á síðustu árum hefur Arndís verið ötul við að sækja um embætti presta og sóknarpresta þjóðkirkjunnar. Hefur hún meðal annars sótt um embætti prests í Árbæjarprestakalli, embætti prests í Garðaprestakalli, embætti prests í Seljaprestakalli, embætti sóknarprests í Hrunaprestakalli og embætti prests í Grafarvogsprestakalli.

Arndís hefur fengið vígslu sem prestur en það var sumarið 2013 þegar hún var vígð til þjónustu í Kvennakirkjunni. 

Þegar þjóðkirkjan auglýsir eftir prestum og sóknarprestum eru að jafnaði hátt í tíu umsækjendur. Þau sem hlotið hafa vígslu eru líklegri til þess að fá embættið en þó er litið til ýmissa þátta við valið. 

Oftar kosið á seinni árum

Færst hefur í vöxt að sóknarbörn óski eftir almennri prestskosningu. Árið 2014 sóttu sjö um stöðu sóknarprests í Seljaprestakalli. Valnefnd lagði til að sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson, prestur í kirkjunni um nokkurt skeið, yrði skipaður sóknarprestur en biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, ákvað að staðfesta ekki val valnefndar en hún taldi að með því bryti hún jafnréttislög.

Starfið var auglýst að nýju en eftir að nógu margar undirskriftir söfnuðust, þ.e. fleiri en 1.600, var kosið um stöðuna og fór Ólafur Jóhann með sigur af hólmi. 

Frétt mbl.is: Nokkur hundruð vilja kjósa prest

Sr. Erla Guðmundsdóttir var kosin sóknarprestur í Keflavíkurprestakalli í maí á þessu ári en hún var ein í kjöri. 4.577 sóknarbörn voru á kjörskrá. Alls voru 939 at­kvæði greidd sem var 21% kjör­sókn en auðir og ógild­ir seðlar voru 15. Erla Guðmunds­dótt­ir fékk 924 at­kvæði og er rétt­kjör­inn sókn­ar­prest­ur í Kefla­vík­ur­prestakalli. Bisk­up Íslands skip­ar í embættið.

Frétt mbl.is: Erla kjörin sóknarprestur

Þá má einnig nefna að árið 2013 fór fram almenn prestskosning um embætti sóknarprests í Staðastaðaprestakalli í Vesturlandsprófastsdæmi og fór Páll Ágúst Ólafsson, sem þá hafði ekki hlotið vígslu, með sigur af hólmi. Hér má lesa um niðurstöður kosningarinnar. 

Lágafellskirkja í Mosfellsbæ.
Lágafellskirkja í Mosfellsbæ. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert