Guðrún Margrét býður sig fram

Guðrún Margrét Pálsdóttir.
Guðrún Margrét Pálsdóttir. mbl.is/Ómar

Guðrún Margrét Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur og einn af stofnendum ABC hjálparstarfs, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti forseta Íslands en hún hyggst tilkynna formlega um framboðið á Grand Hóteli í Reykjavík klukkan 12:30 í dag.

Fram kemur í fréttatilkynningu að ákvörðunin hafi verið tekin fyrr á þessu ári í kjölfar þess að hún hafi verið spurð að því hvers vegna hún byði sig ekki fram. Hún hafi fyrst í stað vísað því á bug en síðan farið að velta því fyrir sér. Meðal annars í kjölfar þess að eiginmaður hennar tók undir hvatningu til þes að gefa kost á sér í forsetaembættið.

„Áherslumál mín verða að við stöndum saman og hjálpumst að sem þjóð og förum hamingjuleiðina, þ.e. að við hlúum að rótum okkar og vöxum í trú, von og kærleika. Velferð þjóðarinnar skiptir mig miklu máli. Ég hef áratuga reynslu í að láta gott af mér leiða og mun gera það sem í mínu valdi stendur til að stuðla að bættum kjörum þeirra sem búa við skort á þessu landi nái ég kjöri,“ segir ennfremur.

Þá segir að söfnun meðmælenda gangi vel og hafi þegar safnast nær eitt þúsund meðmælendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert