Ari er orðinn köttur á ný

Hann Ari er lítill, hann er líklega um það bil tveggja ára trítill, þótt erfitt sé að segja til um það með vissu. Augun hans eru svo sannarlega falleg og skær, smaragðsgræn, en nýjum eiganda hans, Gígju Söru Björnsson, finnst það sjást í þeim að hann hafi gengið í gegnum miklar hremmingar.

Það er enda deginum sannara. Ari er einn þeirra 57 katta sem félagið Villikettir hefur bjargað af einu og sama heimilinu á síðustu mánuðum. Alls bjuggu um 100 kettir á heimilinu við ömurlegar aðstæður og eru því nokkrir tugir enn eftir og stendur til að lóga þeim á föstudag, finnist ekki ný heimili.

Með svöðusár og niðurgang

Gígja segir Ara varla hafa verið eitt kíló að þyngd þegar hann var tekinn af heimilinu. Hann var með flakandi sár á síðunni eftir hundsbit, en auk kattanna voru hundar á heimilinu sem einnig sættu illri meðferð. Félagsmenn í Villiköttum sáu til þess að sárið var saumað og hart var unnið að því að þyngja hann en það þurfti nánast að þvinga ofan í hann fæðu auk þess sem hann þjáðist af meltingartruflunum og miklum niðurgangi.

„Ég var farin að googla hvernig líffæri á kisum væru, af því að ég var alveg svona: „Þetta er lifur, þetta eru nýru,“ ég sá allt! Hann var svo ótrúlega grannur. Á sama tíma, ég veit ekki, það kemur einhver tilfinning um að maður þurfi að bjarga, maður þurfi að hjálpa.“

Ari var mjög feiminn við myndavélarnar þegar mbl.is kíkti í heimsókn til þeirra Gígju og faldi sig undir sófa. Hann skreið þó undan nokkrum sinnum til að gæða sér á vel útilátnum diski af blautmat sem hann sporðrenndi af bestu lyst. Hann var enn feimnari þegar hann kom fyrst til Gígju, faldi sig fyrir heimilisfólkinu á daginn en kom þó út á kvöldin.

 „Í hvert skipti sem hann kom til mín, ég bara táraðist í hvert skipti, ég var svo glöð af því að mér fannst hann vera að sýna mér svo mikið traust. Mér finnst eins og hann sé alltaf að þakka mér fyrir,“ segir Gígja.

„Allt í einu kom þetta líf

Í fyrstu var Ari ekki eins og köttur að sögn Gígju heldur óræð, hrædd sál. Nú hefur hann náð hreint ótrúlegum bata, þrefaldað líkamsþyngd sína, fundið leikgleðina og köttinn í sér. Hann vekur Gígju á kvöldin til að fá knús og lyndir vel við hinn köttinn sem var fyrir á heimilinu.

„Í gær sá hann fiðrildi í fyrsta skipti og hann bara hljóp og elti fiðrildið. Ég hef aldrei séð hann gera neitt svona, hann fylgdi ekki einu sinni eftir hendinni á mér þegar ég gerði eitthvað. Allt í einu er hann bara að elta fiðrildi, borða á fullu og þrífa sig eiginlega frekar dónalega uppi á borði,“ segir Gígja.

Hún nýtir tækifærið til að minna Ara á að hann eigi ekki að fara upp á borð og klárar svo hugsunina: „Allt í einu kom þetta líf sem maður sér hjá öðrum kisum.“

Sem stendur vantar átta ketti í athvarfi félagsins ný heimili en hægt er að sjá myndir og upplýsingar um hvern og einn þeirra með því að smella hér. Þar að auki er mikil þörf á fósturfjölskyldum fyrir ketti sem sóttir verða fyrir föstudag til að forða þeim frá lógun.

Hér má sjá svöðusár Ara, fyrst eftir að hann kom …
Hér má sjá svöðusár Ara, fyrst eftir að hann kom til Villikatta. Ljósmynd/ Villikettir

 Frek­ari upp­lýs­ing­ar um Villiketti og hvernig styðja má starfið má finna með því að smella hér.

Hægt er að styrkja fé­lagið í gegn­um reikn­ings­núm­erið: 0111-26-73030 og  kenni­tölu: 710314-1790.

Átta kett­ir úr hús­inu eru nú í um­sjá Villikatta og …
Átta kett­ir úr hús­inu eru nú í um­sjá Villikatta og þeir eru all­ir í heim­il­is­leit. mbl.is/ Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert