Lúsmý veldur usla í Kjósinni

Sumarhúsaeigandi í Kjós var fórnarlamb lúsmýsins um helgina.
Sumarhúsaeigandi í Kjós var fórnarlamb lúsmýsins um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Lúsmý hefur látið til skarar skríða gegn landanum í sumar en fólk sem var í sumarbústað í Kjós um helgina var bitið illa af mýi. Má telja líklegt að um lúsmý hafi verið að ræða.  „Við vitum ekkert hvernig lífshættir þessa dýrs eru,“ segir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, í samtali við mbl.is.

Lúsmýsins varð fyrst vart á Íslandi í fyrrasumar en það hefur einna helst látið á sér kræla um suðvestanvert landið, þá helst beggja vegna Hvalfjarðar og allt suður í Hafnarfjörð.

Frétt mbl.is: Lúsmý lætur aftur á sér kræla

Bitin valda töluverðum kláða og óþægindum.
Bitin valda töluverðum kláða og óþægindum. Ljósmynd/Aðsend

Hámarksfjölda náð

Erling telur að lúsmýið hafi þegar náð sínum hámarksfjölda í sumar en getur ekki sagt til um hversu langt fram eftir sumri lúsmýið verður á ferðinni. „Yfirleitt er það þannig með svona dýr að það á sér ákveðið hámark eftir ákveðinn tíma og það heldur ekkert áfram að fjölga, það bara klárar sitt ferli. Við bara fylgjumst með,“ segir Erling.

Þar sem tilkoma þessa skordýrs er nýleg hér á landi þekkjast lifnaðarhættir þess lítið enn sem komið er. „Þetta snertir fólk og það er um að gera að fylgjast með þessu.“

Lúsmý.
Lúsmý. Ljósmynd/Erling Ólafsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert