Sökuð um að reyna að koma Gunnari á lista

Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata er sökuð um að hafa reynt …
Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata er sökuð um að hafa reynt að beita sér til að koma Gunnari Ingiberg Jónssyni fyrrverandi gjaldkera flokksins ofar á lista í Norðvesturkjördæmi. Kristinn Ingvarsson

Birgitta Jónsdóttir  þingflokksformaður Pírata, er í bréfi sem Lilja Magnúsdóttir, fyrrverandi meðlimur kjördæmisráðs Pírata í Norðvesturkjördæmi sendi á fjölmiðla í dag, sökuð um að hafa reynt að beita sér til að koma Gunnari Ingiberg Jónssyni fyrrverandi gjaldkera flokksins ofar á lista í Norðvesturkjördæmi. Flokksmenn hafi ennfremur verið hvattir til þess að samþykkja ekki listann í kjördæminu.

Birgitta hefur hafnað þessum ásökunum á þræði á Pírataspjallinu og segir þær ekki eiga við nein rök að styðjast. 

Píratar höfnuðu lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í atkvæðagreiðslu á landsvísu eftir að Þórður Pétursson, sem hafði verið kjörinn oddviti flokksins í kjördæminu, var sakaður um smölun fyrir prófkjör. Prófkjörið var því endurtekið, en Lilja segir þá ákvörðun þó ekki hafa verið tekna fyrr en mistekist hafi að koma Gunnari Ingiberg ofar á listann með öðrum ráðum.

„Þegar niðurstaða kosningarinnar varð ljós fór að bera á óánægju þeirra Vestfirðinga enda þeirra maður frekar svekktur með sinn hlut og vildi ofar. Kæra vegna smölunar fór í gang og símhringingar fóru að berast.  Aðilinn í þriðja sæti sem og aðilinn í fjórða sæti fengu símhringingar frá kosningastjóra og meðlimum framkvæmdaráðs þess efnis að Gunnar Ingiberg gerði kröfu á að komast ofar á lista og menn voru beðnir um að færa sig til í hans þágu,“ segir í bréfi Lilju.

Þá hefur RÚV eftir Hafsteini Sverrissyni, fyrrverandi varaformanni Pírata á Vesturlandi, að Birgitta hafi hringt í flokksmenn víða á Vesturlandi og mælst til þess að hliðrað væri til fyrir Gunnari.

„Þingmaður flokksins, Birgitta Jónsdóttir, fór hamförum á leynilegri síðu flokksins þar sem hún sagðist þekkja mann og annan í heimabæ Þórðar Péturssonar, efsta manns á lista, sem gættu sagt sér hitt og þetta um manninn...” heldur Lilja áfram og birtir skjáskot af ummælum Birgittu um Þórð: „Ég er búin að finna einn úr Garðabæ sem þekkir hann og hann ber honum ekki góða sögu og er vinur Pírata, fæ ekkert að vita meira fyrr en ég fer í útvarpsviðtal á miðvikudagsmorgun... arg.“ og „Og er frekar óvinsæll þjálfari þar í bæ...,“ segir í ummælunum.

Gengdarlaus áróður á Facebook síðum flokksins

Lilja segir gegndarlausan áróður hafa verið á Facebook-síðum flokksins, bæði opinberum og óopinberum. 

„Símtöl héldu áfram að berast um allt land.  Fólk var beðið um að fella listann og ýmiskonar rökum slengt fram, efstu menn væru ekki þekktir innan grasrótarinnar í Reykjavík, það væri ekki nógu margar konur á listanum og það þyrfti að rétta við hlut Vestfirðinga. En fyrst og fremst var sú ástæða nefnd að smölun væri ekki liðin innan flokksins. Allavega ekki úr þeirri átt sem talin var hafa verið í baráttu efsta manns á listanum.“

Listinn var felldur í atkvæðagreiðslu Pírata á landsvísu og kosið aftur, en sex frambjóðendur hættu við að bjóða sig fram í annað sinn, m.a. Þórður. Í seinni kosningunni hafnaði Eva Pandóra Baldursdóttir í efsta sæti, en hún var í fjórða sæti í fyrra prófkjörinu. Í öðru sæti varð Gunnar Ingiberg Jónsson, sem og er því um töluverðar breytingar að ræða frá fyrri lista. 

Á ekki við rök að styðjast

Birgitta hafnar alfarið þessum ásökunum á þræði á Pírataspjallinu og segist vera í miklu áfalli við að lesa um ásakanir þess eðlis. 

„Því sem er haldið þarna fram er særandi og á ekki við nein rök að styðjast. Ég hef heyrt kjaftasögur um að ég hafi verið að hringja í fullt af fólki til að segja því hvernig það á að haga sér í þessu NV dæmi, fólk sem ég hef bara aldrei heyrt í síma, né hef ég símanúmerin þeirra. Ég hafna þessum ásökunum en vil ekki taka slag við félaga mína í fjölmiðlum,“ skrifar Birgitta.

mbl.is