Aurum-málið 2.0 hefst í dag

Frá aðalmeðferð Aurum-málsins í héraði í árið 2014. Á myndinni …
Frá aðalmeðferð Aurum-málsins í héraði í árið 2014. Á myndinni má sjá þá Magnús Arnar, Bjarna og Jón Ásgeir auk verjenda þeirra. mbl.is/Þórður

Í dag hefst aðalmeðferð í svokölluðu Aurum-máli í annað skiptið. Áður hafði málið farið í gegnum héraðsdóm sem endaði með sýknu ákærðu. Seinna ógilti Hæstiréttur niðurstöðuna vegna ummæla meðdómanda í málinu sem bentu til óvildar hans í garð embættis sérstaks saksóknara, en meðdómarinn var bróðir Ólafs Ólafssonar fjárfestis, sem áður hafði verið ákærður af embætti sérstaks saksóknara í Al-thani málinu og dæmdur til fangelsisvistar. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin núna taki 7-8 daga.

Málið er höfðað gegn Lár­usi Weld­ing, fyrr­ver­andi banka­stjóra Glitn­is, Magnúsi Arn­ari Ásgríms­syni, fram­kvæmda­stjóra fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans, Jóni Ásgeiri Jó­hann­es­syni, sem var einn aðal­eig­enda bank­ans, og Bjarna Jó­hann­es­syni, fyrr­ver­andi viðskipta­stjóra Glitn­is banka.

Sam­kvæmt ákær­unni er Jón Ásgeir ákærður fyr­ir hlut­deild í umboðssvik­um Lárus­ar og Magnús­ar Arn­ars en til vara fyr­ir hylm­ingu og til þrauta­vara fyr­ir pen­ingaþvætti og fyr­ir að hafa á ár­inu 2008 í krafti áhrifa sinna í Glitni beitt Lár­us og Bjarna for­töl­um og þrýst­ingi og hvatt til þess, per­sónu­lega og með liðsinni Jóns Sig­urðsson­ar, vara­for­manns stjórn­ar Glitn­is Banka hf., og Gunn­ars Sig­urðsson­ar, for­stjóra Baugs Group, að Lár­us og Magnús Arn­ar samþykktu að veita fé­lag­inu FS38 ehf. 6 millj­arða króna lán frá Glitni, hon­um sjálf­um og Fons til hags­bóta.

Lárus Welding er einn hinna sem ákærður er í málinu.
Lárus Welding er einn hinna sem ákærður er í málinu. Kristinn Ingvarsson

Þetta er eina hrunmálið sem Jón Ásgeir og Bjarni hafa verið ákærðir í, en Lárus Welding var áður ákærður í Stím-málinu og markaðsmisnotkunarmáli Glitnis auk Vafningsmálsins þar sem hann var sýknaður. Var hann sakfelldur í Stím-málinu í héraðsdómi en aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmálinu er ekki enn hafin. Magnús Arnar var áður ákærður og dæmdur í 2 ára fangelsi í Hæstarétti í svokölluðu BK-44 máli.

Þeir Lár­us og Magnús Arn­ar eru ákærðir fyr­ir umboðssvik með því að hafa 8. eða 9. júlí 2008 mis­notað aðstöðu sína og stefnt fjár­mun­um bank­ans í veru­lega hættu með því að fara út fyr­ir heim­ild­ir sín­ar til lán­veit­inga er þeir samþykktu í sam­ein­ingu að veita einka­hluta­fé­lag­inu FS38, eigna­lausu fé­lagi með tak­markaða ábyrgð, 6 millj­arða króna lán án full­nægj­andi trygg­inga fyr­ir end­ur­greiðslu.

Lánið var veitt til að fjár­magna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf. í Aur­um Hold­ings Lim­ited en hluta­bréf þess fé­lags voru ekki skráð í kaup­höll. Voru 2,8 milljarðar af láninu notaðir í uppgreiðslu láns Fons við Glitni, tveir milljarðar fóru á reikning Fons og 1,2 milljarðar á handveðsettan reikning Fons til að bæta tryggingarstöðu félagsins við Glitni.

mbl

Í ákær­unni seg­ir að Jón Ásgeir hafi ráðið yfir 40% af hluta­fé bank­ans í gegn­um fé­lög sem hann, fjöl­skylda hans og viðskipta­fé­lag­ar áttu meiri­hluta í og stjórnuðu. Þá seg­ir: „Hon­um gat ekki dulist að með lán­veit­ing­unni væru ákærðu Lár­us og Magnús Arn­ar að mis­nota aðstöðu sína og valda bank­an­um veru­legri fjár­tjóns­hættu en að und­ir­lagi ákærða Jóns Ásgeirs heim­ilaði Fons hf. ráðstöf­un á 1.000.000.000 króna af láns­fjár­hæðinni inn á reikn­ing ákærða Jóns Ásgeirs sem hann tók við og nýtti í eig­in þágu, meðal ann­ars til að greiða 704.916.008 króna ótryggða yf­ir­drátt­ar­skuld sína hjá Glitni banka hf. Fékk ákærði Jón Ásgeir þannig hlut í ávinn­ingi af brot­inu og naut hagnaðar­ins.

Árið 2009 færðu lánardrottnar Aurum hlutfé félagsins niður í 1 sterlingspund og við það varð veð Glitnis að engu. FS var síðar sett í gjaldþrotaskipti og fundust engar eignir upp í kröfur. Það var svo í lok árs 2012 sem ákæra í málinu var gefin út af embætti sérstaks saksóknara, sem síðar varð að héraðssaksóknara. Aðalmeðferð fór fram í apríl og maí árið 2014 og var að lokum sýknað í málinu. Einn dómari skilaði þó sératkvæði og vildi sakfella þrjá af fjórum í málinu.

Stuttu síðar kom í ljós að sérfróður meðdómsmaður í málinu, Sverrir Ólafsson, var bróðir Ólafs Ólafssonar sem hafði áður verið dæmdur í Al-thani máli Kaupþings. Sagðist saksóknari ekki hafa vitað af tengslunum og endaði það með að ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og fór fram á að dómurinn yrði ógildur og málið sent á ný í héraðsdóm. Hæstiréttur féllst á það í apríl 2015.

Aurum-málið er eina hrunmálið sem Jón Ásgeir Jóhannesson er ákærður …
Aurum-málið er eina hrunmálið sem Jón Ásgeir Jóhannesson er ákærður í. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Við tóku deilur um dómara málsins í héraði, en Guðjón St. Marteinsson, sem hafði verið dómsformaður í fyrri atrennunni, átti að sitja áfram. Saksóknari taldi aftur á móti að hann væri ekki hæfur til að dæma áfram í málinu. Guðjón kvað upp úrskurð um að hann væri hæfur, en Hæstiréttur dæmdi svo að skipa skyldi nýjan dómsformann.

Þá tók Símon Sigvaldason sæti meðdómarans Arngríms Ísberg, sem áður hafði skilað sératkvæði í málinu. Vildu verjendur ekki sætta sig við setu Símonar, en hann hefur áður dæmt menn seka í hrunmálum. Hæstiréttur vísaði þessari kröfu aftur á móti frá. Þá sögðu verjendur að sérfróðan meðdómara sem fenginn hafði verið til að dæma í málinu, Hrefnu Sigríði Briem, skorti sérfræðiþekkingu til að dæma í málinu sem sérfróður meðdómari. Þessu hafnaði dómsformaður og er nú komið að aðalmeðferð málsins.

Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að málið taki 7-8 daga í héraði, en það þýðir að aðalmeðferð ljúki í lok næstu viku.

mbl.is