Hælisleitendur í Herkastalann

Hjálpræðisherinn seldi Herkastalann fyrr á þessu ári. Hann var byggður …
Hjálpræðisherinn seldi Herkastalann fyrr á þessu ári. Hann var byggður árið 1916. mbl.is/Árni Sæberg

Útlendingastofnun hefur gert samning um leigu á gamla Herkastalanum í miðbæ Reykjavíkur. Unnið er að því að útvega starfsleyfi og að gera húsnæðið klárt. Vonast er til þess að hælisleitendur geti flutt þangað innan skamms.

Um 140 manns hafa sótt um vernd á Íslandi í þessum mánuði. Í október var fjöldinn um 200. Á þessu ári hafa því rúmlega 900 manns sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. 

Hjálpræðisherinn seldi Herkastalann fyrr á þessu ári. Húsið er 1.405,4 fer­metr­ar að stærð og var byggt árið 1916. 

Öll úrræðin fullnýtt

Búsetuúrræði Útlendingastofnunar fyrir hælisleitendur eru nú öll fullnýtt. Um 200 hælisleitendur dvelja því t.d. á hótelum hér á landi. 

Störfum meindýraeyðis, vegna veggjalúsar, er lokið í móttökumiðstöðinni í Bæjarhrauni og verður hún tekin aftur í notkun að hluta á allra næstu dögum. Þar er unnið að viðhaldi og því verður húsnæðið tekið í notkun á ný í áföngum.

Aðstæður í hverju búsetuúrræði eru mjög mismunandi. Á sumum stöðum er eldhús en á öðrum ekki. Þegar ekkert eldhús er á staðnum er boðið upp á aðsendan mat.

Um 30 hælisleitendur dvelja á Skeggjagötu í Reykjavík á vegum stofnunarinnar. Í frétt Stundarinnar kom fram að fólkið hefði hvorki borð né stóla. Unnið er að úrbótum því samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá Útlendingastofnun er nú búið að panta fleiri stóla. Þá fá allir sem þar dvelja afhenta kassa með húsbúnaði, s.s. glasi, diski, hnífapörum og potti, til eigin nota. Stofnunin horfir nú frekar til þessarar lausnar en að geyma slíkt í sameiginlegu rými.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert