Segir héraðsdóm hafa lesið í fordæmi Hæstaréttar

Ólafur Hauksson saksóknari og Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs.
Ólafur Hauksson saksóknari og Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Hauksson héraðssaksóknari segir að með sakfellingarhluta í dómi sínum í Aurum-málinu í dag hafi héraðsdómur lesið í fyrri fordæmi Hæstaréttar varðandi umboðssvik. Nú þurfi að fara yfir málið og skoða hvort sýknan yfir hlutdeildarmönnum passi við fordæmi Hæstaréttar. Það sé aftur á móti ríkissaksóknara að gera það mat og taka ákvörðun um áfrýjun. Segist hann reikna með að það verði gert fljótlega.

Í málinu voru þeir Lárus Welding og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi starfsmenn Glitnis banka, sakfelldir fyrir umboðssvik með því að hafa veitt félaginu FS38 6 milljarða lán án fullnægjandi trygginga og þannig stefnt fjármunum bankans í hættu. Athafnarmaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Glitni, voru aftur á móti sýknaðir fyrir hlutdeildarbrot í málinu.

Segir ekki sóma af ítrekuðum málaferlum gegn Jóni Ásgeiri

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, segir í samtali við mbl.is að hann sé auðvitað ánægður fyrir hönd síns skjólstæðings, en að sakfellingarnar í málinu komi sér á óvart. Þegar mbl.is náði tali af honum var hann ekki búinn að kynna sér forsendur dómsins vel, en að hans sögn væri óeðlilegt að því yrði áfrýjað í ljósi þess að héraðsdómur hafi nú tvívegis sýknað umbjóðanda hans.

Hann segir ítrekuð málaferli gegn Jóni nú hafa teygt sig yfir 15 ár og að ekki sé sómi af þeim. „En aðalatriðið fyrir minn umbjóðanda er samt að hann er búinn að vera í þessari stöðu frá 28. ágúst 2002 samfellt. Þetta eru að verða 15 ár. Ég get ekki neitað því að mér finnst ekki sómi af því að koma alltaf með hvert málið á fætur öðru í því skyni að ná tilteknum manni. Get ekki upplifað þetta öðruvísi,“ segir Gestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert