Tíu ára þingreynsla gott veganesti

Jón Gunnarsson, til vinstri, ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni.
Jón Gunnarsson, til vinstri, ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni. mbl.is/Golli

„Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er veitt. Ég hef núna í vor tíu ára þingreynslu að baki og það mun reynast mér gott veganesti inn í framtíðina og þessi störf,“ sagði Jón Gunnarsson sem verður ráðherra samgöngu-, byggða- og sveitarstjórnamála í nýrri ríkisstjórn.

Spurður út í afstöðu sína til Reykjavíkurflugvallar sagði hann að hún væri skýr. „Ég tel að völlurinn eigi að gegna hlutverki sem miðstöð innanlandsflugs og það er mjög brýnt að tryggja þá starfsemi til einhvers tíma þannig að hægt sé að hafa skipulag og uppbyggingu í samræmi við það,“ sagði Jón að loknum þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins.

„Hitt er svo annað mál að það eru áhugaverðir valkostir í stöðunni sem við þurfum að setjast yfir og skoða. Það er verið að skoða Hvassahraun. Það eru hugmyndir uppi hjá einhverjum að þar geti jafnvel orðið að hluta til alþjóðaflugvöllur. En það er algjörlega óskrifað blað og á meðan svo er þá verður að eyða óvissunni um þá mikilvægu starfsemi sem Reykjavíkurflugvöllur gegnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert