Aðstoðarmenn með 1,2 milljónir á mánuði

Einhverjir ráðherrar eiga eftir að velja sér aðstoðarmann, eða aðstoðarmenn.
Einhverjir ráðherrar eiga eftir að velja sér aðstoðarmann, eða aðstoðarmenn. mbl.is/Eggert

Laun aðstoðarmanna ráðherra eru ákvörðuð samkvæmt ákvörðun kjararáðs um kjör skrifstofustjóra í ráðuneyti. Miðað við síðustu hækkun kjararáðs á þeim launum fá aðstoðarmenn ráðherra tæpar 1,2 milljónir króna í mánaðarlaun.

Ráðherrar nýskipaðrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru þessa dagana að velja sér aðstoðarmenn og hafa nokkrir nú þegar gengið frá þeim málum.

Frétt mbl.is: Þorsteinn ræður tvo aðstoðarmenn

„Aðstoðarmenn sem eru ráðnir til starfa í Stjórnarráði Íslands skulu á hverjum tíma ekki vera fleiri en nemur tveimur fyrir hvern ráðherra en heimilt er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur,“ stendur í lögum um Stjórnarráð Íslands.

Greint var frá því í fréttum síðasta sumar þegar laun skrifstofustjóra hækkuðu um 30% og laun aðstoðarmanna í samræmi við það. 

Frétt mbl.is: Borgar Þór aðstoðarmaður Guðlaugs

Ekki er skylda til að auglýsa starf aðstoðarmanna og því geta ráðherrar valið þá sem þeir vilja hafa sér við hlið á meðan þeir starfa í ráðuneyti. 

Þegar aðstoðarmaður lætur af störfum á hann rétt á biðlaunum í þrjá mánuði. Átta ráðherrar hættu störfum sínum við ríkisstjórnarskiptin og því eiga átta aðstoðarmenn ráðherra rétt á biðlaunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert