„Bara toppurinn á ísjakanum“

Um 20 kg af hassi fundust um borð í grænlenska …
Um 20 kg af hassi fundust um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq. Fíkniefni eru gríðarlegt vandamál á Grænlandi. Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson

„Þetta er töluvert magn tekið í skipinu en þetta er bara toppurinn á ísjakanum,“ segir Inga Dóra Markussen, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, um þau 20 kg af hassi sem fundust um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir ólíklegt að efnin hafi verið ætluð íslenskum markaði.

Fíkniefnanotkun er gríðarlegt vandamál á Grænlandi og segir Inga Dóra það mikið áhyggjuefni hve stór hópur fólks á öllum aldri notar fíkniefni. „Það er að segja bara hassið, það eru ekki sterkari fíkniefni á Grænlandi, sem betur fer getur maður sagt.“

Frétt mbl.is: Hass óhindrað um íslenskar hafnir

Segir Inga Dóra yfirvöld á Grænlandi stanslaust leitast við að vinna að úrbótum vegna vandans en síðasta sumar heimsótti þáverandi heilbrigðismálaráðherra Grænlands, ásamt fleiri fulltrúum, Sjúkrahúsið Vog og fleiri meðferðarheimili á Íslandi til að kynna sér starfsemina.

Hassið ekki vandamál á Íslandi

„Okkur þykir miklu líklegra að þessi efni hafi verið ætluð til Grænlands, það hefur verið undanfarið, hér höfum við varla orðið vör við hass, þessa brúnu köggla eins og þetta er. Hér virðist kannabisþörfin hafa verið mettuð með grasi,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.

Grímur segir kenninguna sem lögregla vinnur eftir í þessu tiltekna máli vera þá að efnin hafi komið frá Danmörku og ólíklegt þyki að þau séu úr íslenskri framleiðslu eða ætluð íslenskum markaði. „Það má kannski segja að blasi við að þessi leið, að hún sé kannski ágæt fyrir smyglara að nota,“ segir Grímur.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Golli

Íslenska lögreglan hefur verið í sambandi við tollgæslu og fíkniefnalögreglu á Grænlandi og unnið með þeim vegna málsins. Grímur segir ekki útilokað að í framhaldi af þessu máli kunni samvinna með Grænlendingum að vera aukin með einum eða öðrum hætti. „Það má vel vera,“ segir Grímur.

Horfa til Íslands

„Það er töluvert magn af hassi sem náttúrulega kemur inn í landið og það er vel vitað mál og það er mikil umræða um það alls staðar en líka í tengslum við að það er svo stór hópur notenda,“ segir þá Inga Dóra, „það er hræðilega stórt vandamál.“.

Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri Sjúkrahússins á Vogi, segist ekki vita til þess að Grænlendingar komi hingað til lands í meðferð að neinu gagni lengur, það sé liðin tíð. Áður var starfandi hér á landi meðferðarstöðin Von sem sérstaklega þjónustaði erlenda áfengis- og vímuefnaneytendur, þ.á m. Grænlendinga og aðra Norðurlandabúa, en henni var lokað fyrir um 10 árum að sögn Þórarins.

„Þá skildist mér á þeim að þeir væru svona að búa sig undir að gera eitthvert átak þar og mér skildist að það væri nú ekki mikið um meðferð þarna,“ segir Þórarinn um heimsókn grænlenskra ráðamanna til Íslands. „Þeir höfðu miklar áhyggjur af kannabisneyslu hjá ungu fólki.“

Fulltrúarnir sem heimsóttu Vog í fyrra höfðu á orði að sögn Þórarins að þeir horfi til Íslands hvað varðar heilbrigðis- og félagsþjónustu. „Við höfum boðið þeim alla aðstoð en þeir auðvitað verða að byggja þetta upp sjálfir. En það er ekki gott ástand þarna held ég.“

Þarf að bæta úrræði vegna fíkniefna

Lars Emil Johansen, varaforseti Vestnorræna ráðsins, hefur einnig heimsótt meðferðarstofnanir SÁÁ og látið sig málið varða ásamt stjórnvöldum í Grænlandi. „Ég ráðlagði heilbrigðisráðherra okkar að heimsækja Ísland og hún raunar fór í heimsókn síðasta sumar. Síðan þá höfum við skipt um ríkisstjórn svo hún er ekki lengur heilbrigðisráðherra,“ segir Johansen.

Hassið kom að öllum líkindum frá Danmörku og var ætlað …
Hassið kom að öllum líkindum frá Danmörku og var ætlað grænlenskum markaði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í dag er frítt að fara í meðferð á Grænlandi. „Ég veit að það eru engar stórfréttir fyrir ykkur á Íslandi en á Grænlandi er það mjög nýtt af nálinni að þú þurfir ekki að greiða krónu fyrir meðferðarþjónustu,“ segir Johansen. Enn sé þó meiri áhersla og meiri þekking til að aðstoða fólk sem glímir við áfengisvanda en bæta þarf úr hvað varðar þjónustu við fíkniefnaneytendur. Telur Johansen Grænlendinga geta lært margt af Íslendingum í þeim efnum.

„Áfengisneysla hefur verið stórt vandamál lengi og er enn, en það hefur dregist saman töluvert undanfarna áratugi. En við glímum enn við mikinn vanda, sérstaklega varðandi hass.“

„Ég held að það sé mjög góð hugmynd að vinna með Íslendingum og SÁÁ,“ segir Johansen. „Það er held ég mjög góð leið að horfa til þess hvernig Íslendingar vinna úr þessum vandamálum. Það er mitt ráð til okkar eigin ríkisstjórnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert