800 milljónir í mislæg gatnamót

Gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.
Gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar. Kort/Loftmyndir ehf.

Útboðsgögn vegna mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar verða afhent frá og með næstkomandi mánudegi. Opnað verður fyrir tilboð 21. febrúar.

Að sögn Hreins Haraldssonar, forstjóra Vegagerðarinnar, nemur fjárveiting vegna verkefnisins um 800 milljónum króna. Verkið á að vinnast í sumar og eru áætluð verklok í nóvember á þessu ári.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, hafði áður greint frá því að útboðsferlið ætti að hefjast í lok janúar en gatnamótin þykja afar hættuleg.

Frétt mbl.is: Útboðsferli hefst síðar í vikunni

Frétt mbl.is: Gatnamótin þykja stórhættuleg

Hafnarfjarðarbær sendi í síðasta mánuði frá sér tilkynningu þar sem ákvörðun Jóns var fagnað. Þar kom fram að gatnamótin væru „löngu tímabær framkvæmd“ enda séu „aðstæður í og við gatnamótin stórhættulegar eins og fjöldi árekstra og slysa á svæðinu síðustu mánuði bera glöggt vitni“.

Frétt mbl.is: Mislæg gatnamót á dagskrá

Reykjanesbrautin.
Reykjanesbrautin. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Vinna að úttekt vegna Grindavíkurvegar

Einnig stendur til að laga hættulegan vegakafla á Grindavíkurvegi þar sem alvarleg slys hafa orðið og bað Jón Vegagerðina um tillögur til úrbóta á þeim kafla.

Að sögn Hreins er verið að vinna í úttekt á slysatíðni á svæðinu í gegnum árin, auk þess sem hugsanlegar úrbætur og mat á kostnaði við þær eru í undirbúningi. Einnig er verið er að fara yfir tiltæk veðurfarsgögn varðandi hita- og raka- og hálkumyndun á veginum og hvort þau séu breytileg eftir því hvar vegurinn liggur eins og bent hefur verið á.

„Þetta tekur einhverjar vikur. Við höfum þá gögn í höndunum og getum lagt fram einhverjar tillögur um úrbætur,“ segir Hreinn og nefnir að í framhaldi af því yrði ákveðið hvernig yrði staðið að því verki.

Hann segir ekki út úr myndinni að hægt verði að byrja á verkefninu á þessu ári, enda sé það brýnt. Skemmst er að minnast banaslyss á veginum í síðasta mánuði þegar 18 ára stúlka lét lífið.

Frétt mbl.is: Banaslys á Grindavíkurvegi

„Í framhaldi af þessu síðasta hörmulega banaslysi er verið að fara yfir slysasöguna og slysatíðnina og þetta er borið saman við aðra vegi líka,“ segir hann.

Hreinn tekur fram að ekki sé hægt að aðskilja akstursstefnur á öllum veginum en það sé hægt að skoða úrbætur á afmörkuðum köflum sem væri hægt að fara í fljótlega.

mbl.is