Skýrslan endurspeglar fordóma liðinna tíma

Steinunn Þóra Árnadóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum slegin yfir lýsingum sem komu fram í skýrslu vistheimilisnefndar um aðbúnað og illa meðferð á börnum á Kópavogshæli,“ sagði Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Hún sagðist taka undir með þeim sem hafa í fjölmiðlum síðustu daga sagt að það verði að taka skýrsluna og nota hana til að bregðast við í nútímanum. Því spurði hún Þorstein Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hvort ráðuneytið hafi sett í gang vinnu til að bregðast við ábendingum sem settar eru fram í skýrslunni um það sem bæta þarf í málaflokki fatlaðs fólks.

Einnig spurði hún hvað ráðherra hygðist gera til að tryggja fólki mannréttindi á öllum sviðum í samræmi við þann sáttmála sem Ísland er aðili að og hvort sett yrði af stað rannsókn á ofbeldi gegn fötluðum börnum í samtímanum.

Þorsteinn tók undir með Steinunni að hann væri sleginn yfir innihaldi skýrslunnar og þeim lýsingum sem þar er að finna. „Sem betur fer hefur verið gerð veruleg bragabót í þessum málaflokki. Þessi skýrsla endurspeglar viðhorf og fordóma liðanna tíma,“ sagði ráðherrann.

Hann sagðist hafa óskað eftir fundi með formanni nefndarinnar og í framhaldi verði skoðað hvaða viðbragða hún krefst af hálfu ráðuneytisins. „Til skoðunar er að efla eftirlit með þessum málaflokki enn frekar,“ sagði Þorsteinn.

Það er til skoðunar innan ráðuneytisins að setja á fót skrifstofu sem fer sérstaklega með eftirlit með málefnum fatlaðs fólks, sagði Þorsteinn. Hann segir það koma fyllilega til greina að rannsaka ofbeldi gegn fötluðum börnum í nútímanum. „Það er mat þeirra sem til þekkja að það sé vanfjármagnað og við þurfum að bæta úr því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert