Bjarni hitti Bryndísi og Harald

Bryndís Snæbjörnsdóttir, Haraldur Ólafsson og Bjarni Benediktsson.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, Haraldur Ólafsson og Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra boðaði Bryndísi Snæbjörnsdóttur, formann Þroskahjálpar, og Harald Ólafsson, fyrrverandi vistmann á Kópavogshæli, á sinn fund í forsætisráðuneytinu klukkan 13.

Þar ætluðu þau að ræða um málefni Kópavogshælis og skýrslu vistheimilanefndar um börn sem voru vistuð þar.

Bryndís segir að Haraldur komi á fundinn sem talsmaður þeirra vistmanna sem dvöldu á hælinu sem börn. „Hann er einn af fáum sem hefur möguleika á að tjá sig á hefðbundin hátt um þetta sem fór fram,“ segir hún. 

Haraldur Ólafsson og Bjarni Benediktsson.
Haraldur Ólafsson og Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ánægð með afsökunarbeiðni

Bryndís er mjög ánægð að Bjarni hafi beðið fyrrverandi vistmenn Kópavogshælis sem sættu þar illri meðferð afsökunar. Hún hafði áður óskað eftir afsökunarbeiðni frá honum.

Hún kveðst ekki vera fylgjandi því að lögreglurannsókn verði gerð vegna þeirrar meðferðar sem vistmenn á Kópavogshæli sættu.

„Við erum ekkert endilega á því að þetta sé sá farvegur sem við hefðum viljað sjá umræðuna fara í. Við höldum að það  sé málefninu ekki endilega til góðs að nálgast það með þessum hætti,“ segir Bryndís.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún bendir á að það sé tekið afdráttarlaust fram í skýrslu vistheimilanefndar um vistun barna á Kópavogshæli að þar hafi börn sætt illri meðferð.

„Það er viðurkennt í skýrslunni og sýnt fram á að það sé m.a. af stjórnvaldsástæðum og að fjármagnið hafi ekki verið nóg. Það er eðlilegt að þetta fari í þann farveg sem lagt er til, að fólki séu tryggðar sanngirnisbætur,“ segir Bryndís.

„Það er langtum liðið og ég sé ekki að það sé neinn bættari með því að fara í sérstaka lögreglurannsókn á þessu máli.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafa fengið sterk viðbrögð 

Að sögn Bryndísar hefur töluverður fjöldi fólks hringt í Þroskahjálp vegna málsins, auk þess sem fólk hefur óskað eftir því að fá að hitta starfsfólk samtakanna. „Við höfum fengið mjög sterk viðbrögð, sérstaklega frá aðstandendum og eins frá starfsfólki.

Hún nefnir einnig að starfsfólk annarra vistheimila sem voru starfrækt á sama tíma og aðstandendur þeirra vistmanna sem þar voru hafi haft samband.  Þetta fólk hefur velt fyrir sér hvort rannsókn muni einnig fara fram á starfseminni þar. Bryndís bendir á að skýrsluhöfundar frá vistheimilanefnd hafi lagt til að það verði ekki gert en í skýrslunni kemur fram að rökstuddur grunur leikur á að börn á öðrum heimilum hafi einnig sætt illri meðferð á þessum árum.  

mbl.is