„Þau hafa aðeins orðið sjóveik“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þessa stundina liggja nokkrir unglingar í gúmbjörgunarbát utan við Bakkavör á Seltjarnarnesi. Þeir dvelja þar í einn sólarhring. Þetta eru félagar unglingadeildar björgunarsveitarinnar Ársæls sem safna fé til að heimsækja og fá í heimsókn unglinga frá þýskri björgunarsveit. 

Krakkarnir hófu bátamaraþonið sitt á miðnætti í nótt og stefna á að vera í fljótandi bátnum til miðnættis í kvöld sunnudagsins 18. júní. Alls taka 14, af þeim 25 unglingum sem eru í unglingasveitinni, þátt og þau eru á aldrinum 14 til 18 ára.  

Hefur fært þeim ælupoka 

„Þau hafa aðeins orðið sjóveik. Ég hef verið að fara með ælupoka til þeirra en annars eru þau hress,“ segir Karl Ingi Björnsson umsjónarmaður hópsins. Hann bendir á að það sé mjög auðvelt að verða sjóveikur í björgunarbát, loftið getur orðið þungt því báturinn er lokaður og auk þess sjá þau lítið sem ekkert út enda viðrar ekkert sérstaklega vel til þess.  

Unglingadeildin hefur þegar safnað um 400 þúsund í áheitasöfnuninni en þurfa að safna um 500 þúsund kónum til viðbótar. Þau hafa enn tíma til stefnu því björgunarsveitarhópurinn frá Þýskalandi kemur ekki fyrr en um miðjan júlí og dvelur í tvær vikur hér á landi.  

Karl Ingi Björnsson, María Haraldsdóttir og Jón Sigmar Ævarsson, umsjónarmenn …
Karl Ingi Björnsson, María Haraldsdóttir og Jón Sigmar Ævarsson, umsjónarmenn með verkefninu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kenna hvert öðru 

Námskeiðið er byggt upp með þeim hætti að unglingarnir kenna hvert öðru. Íslensku ungmennin mun kenna þýsku vinum sínum allt um sjó- og fjallabjörgun. Í fyrra fóru Íslendingarnir í heimsókn til Þýskalands og fræddust meðal annars um rústabjörgun og fjöldahjálparstöðvar.

„Þetta hefur gefist mjög vel. Þau hlusta jafnvel betur á jafnaldra sína þegar þeir sýna þeim hvernig hlutirnir eru. Þau eru með sameiginlegt áhugamál og ná vel saman,“ segir Karl Ingi. Í fyrra gekk námskeiðið vel þrátt fyrir „smávægilega“ tungumálaörðugleika. Íslensku ungmennin standa vel að vígi í enskunni sem þau notuðu sín á milli, að sögn Karls Inga.  

Hann bendir einnig á að þau ungmenni sem hafa tekið þátt í sambærilegum verkefnum hjá unglingadeildum björgunarsveitanna skili sér frekar í áframhaldandi störf hjá björgunarsveitinni. Fjölmörg dæmi eru um að þeir hafi síðar orðið sjúkraflutninga- og slökkviliðsmenn. 

Öryggisbátur er einnig við höfnina til að færa ungmennunum sitt hvað sem vantar t.d. ælupoka eða vistir eða ferja þau á klósettið. „Mér heyrist ekki annað en að þau skemmti sér vel þarna úti, þau syngja og spjalla,“ segir Karl Ingi. 

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert