Þeir sem vildu skoðuðu meðmælabréfin

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

„Fyrir mína parta taldi ég mig ekki þurfa að sjá þessi svokölluðu meðmælabréf til að taka efnislega afstöðu til málsins eins og það lítur út gagnvart stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd,“ segir Hildur Sverrisdóttir í samtali við mbl.is. Fulltrúar meirihluta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gengu út af fundi nefndar í morgun.

Fulltrúar meirihlutans gengu út af fundinum áður en gögn sem sýndu meðmælabréf vegna uppreistrar æru Roberts Downey voru lögð fram. 

Þetta snerist um að þeir þingmenn sem vildu sjá meðmælabréfin fengu það en aðrir afþökkuðu það þar sem þeir töldu ekki þörf á því fyrir vinnslu málsins. Því var það háttalag haft að fundurinn endaði á því að þessi gögn voru sýnd þannig að þeir sem töldu ekki nauðsynlegt að sjá gögnin viku af fundi.“

Aðspurð svaraði Hildur því játandi að einhverjir nefndarmenn hefðu óskað eftir því á síðasta fundi hennar að sjá umrædd bréf. „Þó nefndin hafi ekki sett sig upp á móti því þá er ekki þar með sagt að einstaka þingmenn séu bundnir af því að sjá einstök trúnaðargögn ef þeir telja það ekki nauðsynlegt fyrir vinnslu málsins fyrir nefndinni að öðru leyti.“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, telur að kalla þurfi eftir áliti lögmanns Alþingis og forsætisnefndar um hvort þeir sem viku af fundinum geti setið á fundum í framhaldinu þar sem rætt er um spurningar sem vakna við lestur bréfanna.

„Ef framvinda málsins er á þann hátt að það beri að skoða þessi meðmælaatriði sérstaklega þá held ég að fyrsta skrefið væri að skoða hvort ráðuneytið gæti tekið saman hvaða efnislegu atriði hafa verið þar til skoðunar, af hverjum og svo framvegis. Ég tel að málið sem slíkt í stóru samhengi hafi alla burði til að halda áfram þó að nákvæmlegt efnisinnihald þessara trúnaðarupplýsinga séu ekki þar í forgrunni,“ segir Hildur.

mbl.is