Helmingur vistmanna fær hæstu bætur

Kópavogshæli kvennadeild, reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er …
Kópavogshæli kvennadeild, reist á sjötta áratug síðustu aldar. Þar er nú rekin endurhæfingarstöð fyrir fatlaða. Karladeildin sem reist var um 1950 var í sams konar byggingu vestan við kvennadeildina. Karladeildin var rifin fyrir nokkrum árum. mbl.is/Ómar

Um helmingur fyrrverandi vistmanna Kópavogshælis sem sótti um sanngirnisbætur vegna meðferðar sinnar fær greiddar fullar bætur, eða 7,8 milljónir króna, vísitölutryggt. Þetta segir Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vistheimila. Bæturnar hafa engin áhrif á aðrar bætur, þar á meðal örorkubætur, auk þess sem þær eru skattfrjálsar.

Alls nema bæturnar um 460 milljónum króna sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að greiða út á næstu þremur árum.

78 einstaklingar fá bætur en heildarfjöldi einstaklinga sem dvöldu sem börn á hælinu á árunum 1952 til 1993 og eru enn á lífi er 89.

„Þetta er mjög eðlileg niðurstaða. Það er tekið tillit til allra þátta og sérstöðu þessa hóps,“ segir Guðrún um upphæð bótanna.

Að sögn Guðrúnar er búið sé að ganga frá því að greiddar verði bætur til 78 einstaklinga. Þeir ellefu sem ekki sóttu um voru í skammtímavistun. „Það er alveg eðlilegt að það komi ekki umsókn frá þeim,“ segir hún.

Guðrún Ögmundsdóttir.
Guðrún Ögmundsdóttir. mbl.is/ÞÖK

Sýslumaðurinn á Siglufirði mun senda tilboð um sanngirnisbætur á mánudaginn og búist er við að strax í lok næstu viku fari að berast samþykktir frá vistmönnunum fyrrverandi.

Guðrún tekur fram að tímalengd spili inn í þegar bæturnar eru metnar, en mikill meirihluti fær 80% bætur eða meira af fullum bótum.

Samkvæmt lögum verða tvær milljónir greiddar út strax, tvær milljónir eftir 18 mánuði og afgangurinn 18 mánuðum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert