„Súrrealískur“ níu og hálfur tími

Frá lögregluaðgerðum á vettvangi í gær.
Frá lögregluaðgerðum á vettvangi í gær. AFP

Þrír íslenskir starfsmenn fyrirtækisins NetApp Iceland voru læstir inni á veitingastað á efstu hæð Mandalay Bay-hótelsins í Las Vegas af sérsveitarmönnum í níu og hálfa klukkustund eftir mannskæðustu skotárásina í Bandaríkjunum til þessa.

Í „súrrealískum“ aðstæðum

Starfsmennirnir eru komnir aftur inn á hótelherbergi sín. „Við vorum um níu og hálfan tíma algjörlega lokuð inni í súrrealískum aðstæðum. Á bar þar sem loftkælingin var alltof mikil og fólk lá úti um allt með borðdúka yfir sér og handklæði undir höfðinu,“ segir Sara Sigurðardóttir, sérfræðingur í markaðsmálum hjá NetApp Iceland. Hún segir það hafa verið mikinn létti að komast loksins út af veitingastaðnum en þar lá hún í marga klukkutíma á gólfinu og beið átekta.

Hinir tveir starfsmenn fyrirtækisins sem voru með henni á veitingastaðnum voru Eiki Hrafnsson og Jón Þorgrímur Stefánsson.

Sara Sigurðardóttir
Sara Sigurðardóttir Ljósmynd/Aðsend

Gott að hitta samstarfsfélagana

Sara segir tímann inni á veitingastaðnum hafa verið mjög erfiðan en þau voru þar inni frá klukkan 22.30 í gærkvöldi til um klukkan 8 um morguninn að staðartíma. „Þá fóru þeir með okkur niður í hollum. Við fengum að fara 20 í einu niður í lyftunni,“ segir Sara.

Fólkinu var fylgt niður á meginhæð hótelsins. Þaðan fengu þeir að fara sem gistu ekki á hótelinu en hinir fengu að fara inn á herbergin sín.

Að sögn Söru var mjög gott að hitta aftur hina samstarfsfélaga sem dvöldu á fjórðu hæð hótelsins en sérsveitin réðst inn í herbergi eins þeirra, eins og mbl.is greindi frá í morgun.

Mandalay Bay-hótelið.
Mandalay Bay-hótelið. AFP

Tók tíma að átta sig

Spurð nánar út í hvernig tilfinning það hafi verið að vera lokuð inni á veitingastaðnum strax eftir árásina segir Sara að Íslendingarnir í hópnum hafi ekki áttað sig strax á umfangi og alvarleika árásarinnar. Bandaríkjamennirnir hafi áttað sig fyrr á hvað væri að gerast. „Við förum út á svalir og heyrðum í hríðskotabyssunni, heyrðum öskur og sáum fólk hlaupa og lögguna koma. Maður þorði einhvern veginn ekki að hugsa út í að þetta gæti orðið svona hræðilegt. Svo þegar maður kemur inn og sérsveitin er búin að ráðast inn þá síast þetta hægt og rólega inn,“ greinir hún frá.

AFP

Öndunin í spíral niður

„Svo þegar fréttirnar fóru að koma um fleiri og fleiri látna fór öndunin á manni í spíral niður. Þetta er hræðilegt. Maður skilur ekki svona ómanneskjulega atburði, hvernig einhver getur gert svona. Þetta var ungt fólk að skemmta sér á kántríhátíð. Fimmtíu manns í valnum og 200 manns að berjast fyrir lífi sínu og maður er læstur inni í herbergi með fullt af fólki. Þetta var ótrúlegt og ég óska engum að ganga í gegnum svona.“

AFP

Mikil hræðsla greip um sig 

Hún bætir við að mikil hræðsla hafi gripið um sig þegar sérsveitin kom inn á veitingastaðinn og skipaði öllum að fara niður gólf í skjól, beinandi byssum að fólki. „Maður var ekki viss hvort þetta væri einhver sem væri að hjálpa manni, maður var ekki viss hvort þetta var yfirtaka eða hvað væri að gerast fyrr en maður var búinn að liggja á gólfinu í tíu mínútur eða korter þegar þeir kölluðu að þeir væru búnir að tryggja hæðina og útskýrðu fyrir okkur hverjir þeir voru. Þá róaðist maður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert